136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skimun fyrir krabbameini.

396. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svarið en vil lýsa mjög miklum vonbrigðum með það. Greinilegt er að allt síðasta ár hefur ekkert verið að gert til að tryggja framgang samþykktar Alþingis og nota þær 20 milljónir sem voru sérstaklega ætlaðar til að undirbúa þetta framtak.

Í orðum hæstv. ráðherra kom fram að í nóvember hafi komið fram tillaga frá tilteknum ráðgjafahópi ráðuneytisins að ráðast í þetta verkefni fyrir aldurinn 60–69 ára. Hvergi var á það minnst í máli hæstv. ráðherra hvenær þetta ætti að hefjast og af því má ráða — og það veit ég hafandi verið hér fyrir áramótin — að engin tillaga var til fjárveitinga á fjárlögum í þessu skyni. Ég verð líka að segja að í svari þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra í febrúar á síðasta ári var ætlunin að hefja undirbúningsvinnuna innan skamms og kalla til helstu aðila sem málinu tengdust, svo sem fulltrúa frá landlækni, Lýðheilsustöð, Krabbameinsfélagi Íslands o.s.frv. og síðan átti að haga undirbúningnum þannig að formleg skimun gæti hafist í byrjun árs 2009. Ég verð að endurtaka það sem ég segi. Þarna var um allt annan hóp að ræða en þann sem hæstv. ráðherra nú lýsti og verkefnin allt önnur.

Ég vil vekja athygli á bæklingi um karlmenn og krabbamein og verð að segja að dapurlegt er að ekki skuli vera meiri metnaður í þessu efni vegna þess að árangurinn getur orðið umtalsverður. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég verð að leiðrétta eina tölu sem síðasti (Forseti hringir.) ræðumaður fór með. Árlega greinast að jafnaði 134 Íslendingar með krabbamein í ristli og (Forseti hringir.) endaþarmi en 55 látast af völdum þessara krabbameina.