136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

nýtt háskólasjúkrahús.

354. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að allir landsmenn viti, hvort sem þeir hafa þurft á þjónustu Landspítalans að halda eða þekkja til þar, að afskaplega mikilvægt er fyrir okkur að bæta húsakost háskólasjúkrahússins. Við vitum að það er eitt stærsta verkefni Íslandssögunnar og mikilvægt að vanda til verksins og einhverjum gæti komið til hugar að við þær aðstæður sem nú eru væri skynsamlegt að fresta slíku. Ég er algerlega ósammála því sjónarmiði, af mörgum ástæðum.

Í fyrsta lagi er um dæmigert verkefni að ræða sem mikilvægt er að ráðast í við aðstæður eins og þessar. Það er mannaflsfrekt og nú er afskaplega hagkvæmt að fara út í aðgerðir sem hefði verið dýrara að gera fyrir nokkrum árum. Einnig er áætlað að þetta spari rekstrarkostnað á Landspítalanum um sem nemur 3–5 milljörðum á ári 2009–2030.

Hins vegar er afskaplega mikilvægt að gera þetta með eins hagkvæmum hætti og mögulegt er og því fól ég, virðulegi forseti, forstjóra Landspítalans — og ég ætla að lesa bréf sem ég sendi henni í janúarmánuði og það hljómar svo, með leyfi forseta:

„Í framhaldi af viðræðum ráðuneytisins og nýs forstjóra Landspítalans, sem tók við starfi í október 2008, um undirbúningsvinnu vegna byggingar nýs háskólasjúkrahúss og með vísan til bréfs Landspítalans, dagsetts þann 6. janúar 2009, vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Til að tryggja að undirbúningsvinnan verði sem best og hagkvæmust, með það að markmiði að draga úr kostnaði og tryggja að allur undirbúningur verði skilvirkur fellst ráðuneytið á beiðni Landspítalans sem felur í sér eftirfarandi:

1. Landspítalinn nýti meira eigin krafta til allrar vinnu.

2. Landspítali fari yfir stöðuna hvað varðar framkvæmdir og kostnað.

3. Landspítali geri samanburð á núllanalýsu sem Landspítali gerði í nóvember/desember 2008 þar sem engin slík analýsa lá fyrir á þeirri vinnu sem unnin hefur verið.

4. Landspítali komi með a.m.k. tvo möguleika til viðbótar við það sem þegar liggur fyrir, þar sem sýnt er fram á minni kostnað, og framkvæmdaáætlun sem mun tryggja byggingu nýs háskólasjúkrahúss.

Ráðuneytið mun skipa samráðsnefnd um þetta málefni með beinni aðkomu Háskóla Íslands en fellst að öðru leyti á framangreint að því tilskildu að tillögum samkvæmt 4. tölulið verði skilað til ráðuneytisins í lok mars 2009. Landspítalinn skal árlega leggja framkvæmda- og fjárhagsáætlun fyrir ráðuneytið og gera ráðuneytinu reglulega grein fyrir framvindu verksins. Skal undirbúningsvinna spítalans vera í samræmi við stefnu heilbrigðisráðherra og ákvörðun hans um byggingu nýs háskólasjúkrahúss.

Að lokum felur samþykkt ráðuneytisins á færslu framhaldsverkefna til Landspítala það í sér að spítalinn leitist við að tryggja góða samvinnu við samtök sjúklinga og aðstandenda og geri tillögu til ráðuneytisins um aðkomu þeirra að undirbúningi og skipulagningu verksins.“

Virðulegur forseti. Málið er einfalt. Ég vil kanna hvort hæstv. ráðherra hafi ekki sama áhuga á verkefninu og sá sem hér stendur, og á ég frekar von á því, og kanna hvar málið stendur (Forseti hringir.) og hvort einhverjar breytingar séu fyrirhugaðar eða hvort þetta er í þessu ferli.