136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

nýtt háskólasjúkrahús.

354. mál
[16:15]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin sem gefin voru hér. Það er alveg ljóst að bygging nýs háskólasjúkrahúss er mjög mikilvæg framkvæmd og ekki hefur alltaf ríkt samstaða um þessa framkvæmd. Ég hef stundum heyrt á mæli einstakra þingmanna að þeir telji að það eigi ekki að fara í þessa framkvæmd en ég tel að það skuli gera og heyri að hæstv. ráðherra er að vinna áfram að þessu máli.

Ég undirstrika að reiknað er með upp undir 15% hagræðingu þegar nýja húsið er komið í gagnið þannig að það er eftir miklu að sækjast með því að koma hér upp nýju háskólasjúkrahúsi. Þetta er framkvæmd sem við skulum reyna að halda áfram með eins og getum. Þrátt fyrir að árferðið sé erfitt varðandi fjármál landsins hef ég fundið fyrir velvilja, alla vega hjá þeim sem hafa haft með heilbrigðismál að gera í landinu og við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á að þessu verki verði lokið, (Forseti hringir.) því fyrr því betra.