136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

nýtt háskólasjúkrahús.

354. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og lýsi sérstakri ánægju með þau og að ekki sé um stefnubreytingu að ræða. Það er hárrétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að það er dýrt að gera ekki neitt. Menn verða að átta sig á því að ef niðurstaðan verður sú að ekki eigi að fara í þessa framkvæmd þurfa menn að gera eitthvað annað, það er alveg ljóst. Það er alveg ófyrirséð hvað slíkt mundi kosta og er algjörlega ljóst að menn mundu ekki ná þeim hagræðingarþætti sem næst með því að hafa þetta á einum stað.

Þegar sérfræðingarnir frá Noregi verða búnir að meta þessa hluti í lok mars, ef ekkert hefur breyst, koma þeir hugsanlega með hugmyndir, með nýjar og hagkvæmari lausnir, ef svo ber undir. Það er ekkert leyndarmál að það hefur haft áhrif að fá nýjan forstjóra á Landspítalann sem hefur komið að þessum verkefnum annars staðar, nánar tiltekið hjá vinum okkar Norðmönnum, og ég tel að það hjálpi til. Ég held að það skipti máli fyrir okkur að líta út fyrir landsteinana þegar um slík verkefni og önnur heilbrigðistengd mál er að ræða.

Þegar menn fara af stað í verkið þýðir það að hér skapast vinna fyrir 80 arkitekta og verkfræðinga í 18 mánuði. Þeir verða íslenskir. Af hverju? Vegna þess að fyrri nefnd um aðstöðu, undir forustu Ingu Jónu Þórðardóttur, var svo framsýn að sjá til þess að öll útboðsgögn og tungumál verkefnisins yrðu á íslensku, sem skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að þetta er útboðsskylt á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það var því mjög framsýn ákvörðun.

Við skulum ekki byrgja okkur sýn þó að það séu tímabundnir erfiðleikar hjá íslensku þjóðfélagi. Við skulum ekki gleyma því að við byggðum Háskóla Íslands, Landspítalann og ýmis fleiri stórar byggingar, skóla og annað slíkt, í erfiðu árferði. Þetta er einmitt verkefni sem við eigum að (Forseti hringir.) ráðast í í ástandi eins og nú er.