136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

nýtt háskólasjúkrahús.

354. mál
[16:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi verið mjög góð hugmynd hjá forsvarsmönnum Landspítalans að fá teikningarnar inn á sitt borð og endurmeta þær. Betur sjá augu en auga, segir máltækið. Ég held að það hafi verið góður kostur að fá ferska sýn á málið með hjálp erlendra arkitekta og er þá alls ekki verið að kasta rýrð á starf þeirra sem áður hafa komi að þessum málum.

Áætlaður framkvæmdakostnaður við nýjan Landspítala hefur verið nefndur 70 milljarðar kr. á verðlagi í febrúar 2009 en þá er þess að geta að tekjur af sölu núverandi eigna kæmu að einhverju leyti upp á móti. Núna er, samkvæmt aðgerðaáætluninni, unnið að því að lækka kostnaðinn og áfangaskipta honum og gera framkvæmdina gerlega miðað við þær erfiðu forsendur sem við byggjum á núna.

Þá hefur verið nefnt að endurnýja þurfi tæki og húsbúnað fyrir nýjan Landspítala en þess jafnframt látið getið af hálfu þeirra sem til þessara mála þekkja að það þurfi að gera hvort sem er. Tæki og búnaður eru í stöðugri endurnýjun þannig að það er tilkostnaður sem metinn er á 12 milljarða kr. og þyrfti að koma óháð því hvort ráðist yrði í nýja byggingu.

Sem sagt samandregið hefur ekki orðið nein stefnubreyting í þessu máli. Það er einvörðungu verið að leita leiða til að áfangaskipta verkinu og gera það gerlegt við þær aðstæður sem við nú búum við.