136. löggjafarþing — 110. fundur,  23. mars 2009.

staða fjármálafyrirtækja.

[13:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. viðskiptaráðherra og árétta það að vandi þessara tveggja stofnana inn í hverra starfsemi var gripið um helgina var ekki nýr af nálinni og nær í tilviki SPRON sérstaklega jafnvel lengra aftur en til falls viðskiptabankanna í október síðastliðnum. Þannig var eiginfjárhlutfall SPRON komið undir viðeigandi mörk, 8% CAD-hlutfall, þegar á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 og ástæða þessa var einkum verðlækkun hlutabréfa í eigu SPRON, sérstaklega í fyrirtækinu Exista.

Kaupþing veitti SPRON 5 milljarða kr. víkjandi lán strax í apríl 2008 og í kjölfarið var í undirbúningi samruni þessara tveggja fjármálastofnana sem hefði að öllum líkindum farið fram á fjórða ársfjórðungi síðasta árs ef ekki hefði komi til falls Kaupþings. Staða SPRON versnaði að sjálfsögðu til muna við fall Kaupþings í haust.

Í tilviki SPRON á ríkið ekki kröfur á fyrirtækið þannig að þar verður ekki um beint tap að ræða vegna falls sjóðsins, en innstæður SPRON voru nálægt 90 milljörðum kr. og því ekki ólíklegt að ríkið þurfi að leggja aukið eigið fé til Kaupþings í hlutfalli við það. Helsta áhætta ríkisins að öðru leyti tengist því hvort eignir SPRON nægi fyrir innstæðum og skuldum við Seðlabankann en talin er lítil hætta á að svo verði.

Erfiðleika Sparisjóðabankans má hins vegar fyrst og fremst rekja til falls stóru bankanna í október. Sparisjóðabankinn átti um 160 milljarða kr. skuldabréf gefin út á gömlu bankana sem höfðu verið sett að veði í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Sparisjóðabankinn gat ekki veitt tryggingar í stað þessara skuldabréfa og þau féllu því á ríkið.

Þegar hefur verið tekinn kostnaður á ríkið sem þessu nemur ásamt um 110 milljörðum kr. til viðbótar hjá öðrum fjármálastofnunum, samtals 270 milljarðar kr. Talið er mögulegt að ríkið muni endurheimta um fjórðung þessara skuldabréfa úr þrotabúum gömlu bankanna en talsverð óvissa er þó um það mat. Ekki ætti að falla frekari kostnaður á ríkissjóð vegna Sparisjóðabankans og það er reyndar rétt að hafa í huga að Sparisjóðabankinn er nú eða fer nú í greiðslustöðvun þannig að í sjálfu sér er allt opið hvað varðar frekari úrvinnslu mála þess fyrirtækis í framhaldinu.

Kostnaður ríkissjóðs vegna aðstoðar við aðra sparisjóði var áætlaður um 25 milljarðar kr. en eftir að SPRON hverfur út úr myndinni verður sú tala a.m.k. sem því nemur lægri eða réttu megin við 20 milljarða. Staða þeirra sparisjóða sem þá eru eftir er mismunandi en unnið er að úrlausn þeirra mála og þegar hafa fjármálaráðuneytinu borist, í samræmi við reglur sem settar voru 17. desember sl., umsóknir frá Sparisjóði Norðfjarðar, Sparisjóði Keflavíkur, Sparisjóði Vestmannaeyja, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Bolungarvíkur og Byr – sparisjóði og verður stefnt að því að hraða úrvinnslu þessara umsókna eins og kostur er. Þær fara til umsagnar hjá Fjármálaeftirliti og Seðlabanka og síðan mun fjármálaráðuneytið vinna úr þeim.

Markmiðið er að sjálfsögðu að treysta það fjármálaumhverfi sem eftir stendur, bæði sparisjóði og sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki. Ég tek undir með hæstv. viðskiptaráðherra, ég held að það sé mikilvægt að árétta að nú vonast menn til að víglínan hafi verið dregin og að það fjármálakerfi sem eftir stendur sé unnt að aðstoða og endurskipuleggja, ekki síst sparisjóðina sem eiga að verða mikilvægur hluti af okkar viðskiptabanka- og fjármálastofnanaumhverfi í framhaldinu.

Það er ýmist búið að gera eða verið að ganga frá samningum við önnur fjármálafyrirtæki í tengslum við endurhverf viðskipti og þar með er það sannfæring okkar að þessari hrinu eigi nú senn að ljúka og við sjáum til lands í þeim efnum að hér verði þá komið á (Forseti hringir.) lífvænlegt og öflugt og fjölbreytt fjármálafyrirtækjaumhverfi.