136. löggjafarþing — 110. fundur,  23. mars 2009.

staða fjármálafyrirtækja.

[13:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Þau alvarlegu tíðindi bárust okkur til eyrna um helgina að SPRON og Sparisjóðabankinn hefðu verið yfirteknir og hugur okkar í því samhengi hlýtur að liggja hjá því starfsfólki sem er nú í óvissu vegna framtíðar sinnar á vinnumarkaði, rétt eins og hjá hátt í 20 þúsund öðrum Íslendingum sem hafa misst vinnuna á undanförnum vikum og mánuðum og bíða eftir raunverulegum aðgerðum stjórnvalda. Það hlýtur því að renna stoðum undir þær róttæku tillögur sem við framsóknarmenn höfum mælt fyrir í málefnum heimilanna og fyrirtækjanna um að ráðast þurfi í róttækar aðgerðir til að koma til móts við þann brýna vanda sem blasir við okkur.

Við framsóknarmenn höfum haldið því fram að það sé mikilvægt að standa vörð um sparisjóði landsins. Við skulum rifja það upp að í öllu góðærinu lánuðu ekki stóru viðskiptabankarnir þrír mörgum smáum byggðarlögum á landsbyggðinni heldur voru það litlu sparisjóðirnir sem stóðu vörð um það hlutverk. Í raun og veru gat fólkið einungis leitað til sparisjóðanna í mörgum tilfellum.

Samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna er göfugt, sparisjóðirnir hafa á undangengnum árum og áratugum sett milljarða inn í mörg byggðarlög, sérstaklega á landsbyggðinni og styrkt mjög mörg brýn mál þar. Við lítum svo á að í þeirri enduruppbyggingu sem við horfumst í augu við á íslensku efnahagskerfi muni sparisjóðirnir leika lykilhlutverk í lánveitingum til einstaklinga og fyrirtækja. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með ræðu hæstv. ráðherra Gylfa Magnússonar þegar hann nefnir það sérstaklega að sparisjóðirnir verði akkúrat í lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu sem fram undan er.

Hins vegar getum við ekki, herra forseti, lokað augunum fyrir því að græðgisvæðingin náði inn í vissa sparisjóði, stofnfjárhluthafar náðu miklum fjármunum út úr vissum sparisjóðum og í raun og veru má segja að margir sparisjóðir hafi farið út af leið á síðustu árum í þeirri græðgisvæðingu sem gekk yfir íslenskt samfélag þá.

Við hljótum að tala fyrir því að byggja upp sparisjóðina á þeim gildum sem til þeirra var stofnað, að eiga fyrst og fremst viðskipti við fyrirtæki og einstaklinga og skila arðinum sem af þeim viðskiptum hlýst út í samfélagið. Það er mikilvægt.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. viðskiptaráðherra, herra forseti, hvort ekki hafi komið til greina í ljósi þess að ráðamenn í ríkisstjórn hafa talað um að styrkja þurfi sparisjóðakerfið að innlán SPRON hefðu farið til annarra sparisjóða til að styrkja tilvistargrundvöll þeirra, og hvort hann hafi rætt ítrekað við forustumenn sparisjóðanna í landinu um mögulegt framtíðarfyrirkomulag sparisjóðakerfisins. Það er brýnt að við eigum mjög virkt samráð við forustumenn sparisjóðanna í landinu til þess að geta styrkt sparisjóðakerfið, til þess að geta reist við marga sparisjóði, kannski ekki hvað síst á landsbyggðinni, sem hafa ötullega unnið að málefnum margra byggðarlaga og styrkt mörg mjög góð málefni og veitt fólki og fyrirtækjum þar mikilvæga aðstoð.

Að lokum þetta, herra forseti: Við framsóknarmenn leggjum höfuðáherslu á að sparisjóðirnir gegna lykilhlutverki við þá enduruppbyggingu fjármálakerfisins sem blasir við okkur. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum að koma til móts við þarfir sparisjóðanna í landinu. Við megum heldur ekki hugsa til þess að það verði allt ríkisins hér á landi. Ég minni á að sparisjóðirnir eru sjálfseignarstofnanir, oft í eigu einstaklinga í byggðarlögum, og við leggjum mikla áherslu á það að grundvöllur þeirra verði treystur til framtíðar og hvetjum hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til dáða í þeim efnum.