136. löggjafarþing — 110. fundur,  23. mars 2009.

staða fjármálafyrirtækja.

[13:28]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Það er hörmulegt hvernig komið er fyrir sparisjóðum landsins, en það var líka hörmulegt hvernig ríkisstjórnin stóð að því að yfirtaka þá um helgina og Fjármálaeftirlitið og það er þeim ekki til framdráttar hvernig að því máli var staðið.

Það er tvennt í þessu máli sem mér finnst ástæða til að nefna, annars vegar ábyrgð Seðlabanka Íslands sem vísvitandi og af ráðnum hug notaði Sparisjóðabankann til að koma út peningum til viðskiptabankanna þriggja þegar allar almennar reglur gerðu það ókleift fyrir Seðlabankann að fjármagna starfsemina meira en orðið var. Sparisjóðabankinn var notaður sem milliliður til að koma út hundruðum milljarða kr. til viðskiptabankanna til að viðhalda blekkingarleiknum. Menn vissu hvað þeir voru að gera. Það má auðvitað líka segja um eigendur Sparisjóðabankans að þeir upplifa núna að skammvinnur verður oft skjótfenginn gróði. Þeir héldu að þeir væru að taka inn mikinn gróða með því að láta þessa peninga flæða þar í gegn, en þeir sitja uppi með skuldirnar og þeir sparisjóðir sem mest fé höfðu lagt inn í þann banka tapa því fé og þurfa að leita á náðir ríkisins til að halda velli. Það sem upp úr stendur, virðulegi forseti, er að menn fóru út af leið, menn gleymdu því að sparisjóðirnir voru þjónustustofnanir en ekki áhættusæknar stofnanir. Menn héldu að hægt væri að taka til sín fé sem þeir áttu ekki til að innleysa það fé sem var án hirðis í gegnum stofnfé og stofnfjárhlutabréf. Þessi slagur stóð m.a. hér í þingsölum þar sem menn þurftu að slást við þáverandi formann efnahags- og viðskiptanefndar sem gekk manna lengst í því að brjóta niður allar varnir fyrir óprúttna einstaklinga til að taka til sín í gegnum stofnféð það fé sem enginn átti annar en sparisjóðurinn sjálfur. Því fór sem fór, virðulegi forseti.