136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

tilvísanakerfi í heilbrigðisþjónustu.

[15:07]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og alþjóð veit þarf að fara í sparnaðaraðgerðir á næstu árum í íslensku samfélagi vegna efnahagsástandsins. Um daginn stóð í fjölmiðlum að þingmenn væru mjög tregir til að ræða sparnaðaraðgerðir og því var líkt við umræðu um bleikan fíl. Ég skora af því tilefni á þingmenn að koma með hugmyndir um hvernig megi spara.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra aðeins út í sparnaðarhugmyndir í heilbrigðiskerfinu. Hvernig er hægt að nýta það fjármagn sem í dag fer til heilbrigðisþjónustunnar með skynsamlegri hætti án þess að þjónusta skerðist? Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji koma til greina að taka upp svokallað tilvísanakerfi í heilbrigðisþjónustunni.

Í nágrannaríkjum okkar ríkir tilvísanakerfi, þ.e. þar er reynt að afgreiða á heilsugæslustigi flesta sjúkdóma sem hrjá fólk og ef með þarf eru sjúklingar síðan sendir til sérfræðilækna. Hér á Íslandi er það þannig að almenningur getur farið beint til sérfræðilækna og ríkið borgar háa prósentu af reikningnum. Það má segja að á landsbyggðinni ríki tilvísanakerfi í dag. Þar eru flest mál afgreidd á heilsugæslustigi og einungis þau alvarlegustu fara til sérfræðilækna. Það má færa rök fyrir því að það kerfi sem við höfum í dag bjóði upp á ákveðna sóun fjármuna og því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort það komi til greina í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í fjárhagslega að taka upp tilvísanakerfi (Forseti hringir.) þannig að það sé tryggt að fólk fái góða þjónustu en fái hana á réttu stigi.