136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

tilvísanakerfi í heilbrigðisþjónustu.

[15:11]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna mjög svari hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er alveg ljóst að við þurfum að spara tugi milljarða í fjárlögum næsta árs þannig að því fyrr sem við getum komið af stað skynsamlegri nýtingu fjármuna því betra. Danska kerfið er mjög gott að því leyti að þar getur fólk einmitt valið um að fara inn í tilvísunarkerfið, fara þá fyrst á heilsugæslustigið og fá þar úrlausn mála. Ef ekki er hægt að leysa úr málum þar fara sjúklingar áfram til sérfræðilækna og njóta þá ódýrari þjónustu þar heldur en ef þeir fara beint til sérfræðilækna fram hjá heilsugæslustöðvunum.

Ég tel að við eigum að fara einhverja slíka leið, geri mér samt grein fyrir því að þetta mun hugsanlega krefjast ákveðinna úrbóta á heilsugæslustöðvunum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það eru a.m.k. á tveimur ef ekki þremur stöðum sem þarf að gera úrbætur til að koma til móts við nýtt kerfi en ég er algerlega sannfærð um það, virðulegur forseti, að til lengri tíma litið mundum við spara (Forseti hringir.) umtalsverða fjármuni í heilbrigðiskerfinu með valfrjálsu tilvísanakerfi (Forseti hringir.) án þess að þjónusta skerðist. Ég fagna því mjög þessu svari hæstv. heilbrigðisráðherra.