136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

skipan sendiherra.

[15:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Á dögunum voru afgreidd frá Alþingi ný seðlabankalög sem gerðu ráð fyrir því að skylt væri að auglýsa stöðu seðlabankastjóra. Markmiðið var að veita öllum jöfn tækifæri á að sækja um starf á grundvelli menntunar, reynslu og annarra verðleika. Með þessari lagabreytingu var horfið frá þeim tímum þegar stjórnmálamenn og þá sérstaklega ráðherrar gátu veitt samherjum sínum bitlinga oftar en ekki á forsendum flokksskírteinisins.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að enn er í gildi gamli tíminn innan íslensku stjórnsýslunnar og þá á ég við í utanríkisráðuneytinu þegar kemur að stöðuveitingum sendiherra. Þar er enn ekki skylt að auglýsa þegar sendiherrastöður losna og í raun og veru er það undir viðkomandi ráðherra komið og hans hugarflugi hvern hann vill ráða í það starf hverju sinni án auglýsingar. (Gripið fram í.)

Í ljósi þess að nýr og vörpulegur utanríkisráðherra hefur tekið til starfa langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann sé ekki tilbúinn að innleiða ný vinnubrögð í utanríkisráðuneytið með því að sendiherrar verði hér eftir skipaðir á grundvelli auglýsingar og allir hafi möguleika á að sækja um á grundvelli verðleika sinna, þekkingar og menntunar. Þannig gætum við í raun og veru komið til móts við þá kröfu sem er í íslensku samfélagi um að gera íslenska stjórnsýslu opnari en hún hefur verið. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hyggst hann beita sér fyrir því að breyta þeim vinnuaðferðum sem hafa ríkt innan ráðuneytisins á undangengnum áratugum?