136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

skipan sendiherra.

[15:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í raun og veru væri þessi breyting á vinnulagi innan utanríkisráðuneytisins í takt við það sem við höfum verið að samþykkja á Alþingis á undangengnum vikum og sérstaklega þegar við rufum þá áratuga löngu hefð að seðlabankastjórar væru skipaðir á grundvelli flokksskírteinis sem er vissulega eitthvað sem við þurfum að láta af.

Ég tel að það sé kallað eftir því að stjórnmálamenn fari að viðhafa ný vinnubrögð og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að íhuga þetta mjög vandlega því að sjálfsögðu eigum við að gefa öllum tækifæri til að sækja um til að mynda sendiherraembætti á grundvelli menntunar sinnar og þekkingar. Og ég get ekki séð, herra forseti, að það væri verra fyrir hæstv. ráðherra að hafa úr að spila margar umsóknir frá mjög hæfileikaríku fólki sem gæti tekið það vandasama verk að sér að vera (Forseti hringir.) sendiherra Íslands á erlendri grundu.