136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér arðgreiðslur í atvinnurekstri og tilefni umræðunnar, eins og hér hefur komið fram, var ákvörðun stjórnar HB Granda fyrir nokkru um að greiða hluthöfum út arð af fjárfestingunni á sama tíma og kjarasamningsbundnum launahækkunum hafði verið frestað í tengslum við samkomulag aðila vinnumarkaðarins. Stjórnin var harðlega gagnrýnd og ákvað fyrirtækið eftir viðræður milli samningsaðila að greiða starfsfólki fyrirtækisins þær launahækkanir sem áður hafði verið frestað. Þetta mál vakti talsverða athygli og kannski eðlilega.

Ég get ekki tekið undir að arðgreiðsla sem er gerð samkvæmt lögum og reglum feli í sér siðleysi, en mér finnst þetta hins vegar koma hálfklaufalega út af hálfu fyrirtækisins. Ég var ánægð með að sjá deiluaðila ná niðurstöðu í málinu sem báðir aðilar gátu sætt sig við.

Mér þótti hins vegar mjög miður að sjá hæstv. forsætisráðherra fara strax í gamalkunnugar stellingar og reka fleyg á milli atvinnurekenda og launþega með ásökunum um siðleysi. Mér finnst það mjög slæmt og ekki sæmandi forsætisráðherra sem ætti frekar að leggja sig fram um að skapa sátt á milli aðila. Mér finnst þetta sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að íslenskt atvinnulíf á í miklum erfiðleikum um þessar mundir eins og allir vita, trúverðugleiki þess hefur beðið hnekki og traust á milli aðila er í algjöru lágmarki. Forsætisráðherra á því að hvetja til yfirvegunar og samstöðu en ekki ala á tortryggni í garð fyrirtækja og forsvarsmanna þeirra. Á sama hátt verða atvinnurekendur að draga lærdóm af þeim mistökum sem gerð hafa verið og endurvinna trúverðugleika. Það er fyrirtækjum og launþegum báðum til hagsbóta að þetta traust verði endurvakið.

Stóra spurningin sem menn verða að svara varðandi arðgreiðslur í atvinnulífinu er hver ávöxtun fjárfesta, sem leggja fjármagnið til atvinnulífsins, eigi að vera. Á hún kannski að vera engin á meðan hægt er að leggja peninga inn á ríkistryggða bankareikninga með fínni ávöxtun? Hvernig þjóðfélag yrði það? Sennilega þjóðfélag stöðnunar þar sem eina atvinnusköpunin fælist í því að fjölga listamönnum á listamannalaunum frá ríkinu.