136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Á þessum dögum á hv. Alþingi er róinn lífróður til að bjarga störfum og til að reyna að bjarga heimilum og fyrirtækjum. Allir leggjast á eitt um að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja og endurreisa samfélagið eftir mikið hrun sem hefur átt sér stað. Við búum við mikla kjararýrnun í augnablikinu og við þessar aðstæður hefur ríkisvaldið á síðustu missirum reynt að koma með ívilnandi aðgerðir fyrir fyrirtæki, ekki hvað síst í sjávarútvegi, m.a. með afnámi veiðileyfagjalds eins og hv. frummælandi vakti athygli á. Því kemur mjög á óvart þegar í kjölfarið, þegar afkoman batnar, m.a. vegna þeirra gjaldeyrishafta sem eru í augnablikinu, þess umhverfis sem búið hefur verið til til að reyna að tryggja afkomu fyrirtækja, skuli fyrirtæki leyfa sér að draga þennan arð út úr fyrirtækinu og án þess a.m.k. að gera grein fyrir því að þann arð eigi að nýta til uppbyggingar á öðrum vettvangi.

Þetta gekk gjörsamlega fram af mér og ég er feginn að verkalýðshreyfingin, þ.e. Verkalýðsfélag Akraness, undir stjórn Vilhjálms Birgissonar, vakti athygli á þessu og vakti þar með þjóðarathygli á því með hvaða hætti viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki fór fram og veitti þannig aðhald og varði hagsmuni starfsfólksins með þeim árangri að fyrirtækið hefur ákveðið að greiða út áður umsamdar hækkanir, 13.500 kr., sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars, og bæta þar með afkomu viðkomandi starfsmanna.

Megi það verða þannig að þau fyrirtæki sem eru aflögufær hjálpi okkur við að endurreisa samfélagið, búa betur að fólkinu í landinu og þetta megi þá verða upphafið að því að við aukum siðgæði og látum þann arð sem myndast í samfélaginu verða í almannaþágu í uppbyggingunni.