136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta leikrit Sjálfstæðisflokksins er með nokkrum ólíkindum og mjög sérkennilegt að sjálfstæðismenn skuli sakna yfirstjórnar Seðlabankans svo mjög að þeir skuli endurvekja umræður sem fóru fram í þinginu fyrir mörgum vikum. Ég held að okkur hinum finnist ágætt að geta horft til framtíðar og reyna að byggja undir efnahagslega endurreisn í landinu. Það er það sem ríkisstjórnin er að gera með þeim verkum sem unnið er að í þinginu í dag.

Það er alveg ljóst eins og hæstv. forsætisráðherra rakti áðan að það eru tugir mála til meðferðar í þingnefndum og þau munu koma til umræðu eftir því sem þeim vindur fram.

Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki slegið slöku við. Hér hefur verið unnið mjög skipulega að því að koma þessum málum í höfn. Það er unnið að því að ljúka öllum þessum málum sem allra fyrst. Það er athyglisvert (Gripið fram í.) að sjálfstæðismenn skuli stöðugt reyna að drepa málum á dreif og draga athyglina frá því sem mestu máli skiptir. (Gripið fram í.)