136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Það er athyglisvert að þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson kemur hér upp til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta þá séu framsóknarmenn sérstaklega krafðir svara um hvað þeim finnist um fundarstjórn forseta. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á hafa menn í raun og veru farið út í efnislega umræðu um málefni Seðlabanka Íslands og fleiri mál undir umræðum um fundarstjórn forseta.

Ég hef verulegar athugasemdir við það, herra forseti, að menn skuli nota þetta fundarform um fundarstjórn forseta til að fara í málefnalega umræðu um eitthvað mál sem kláraðist fyrir mánuði síðan. Ég ætla ekki að fara að kynna hér efnahagstillögur Framsóknarflokksins. Ég vil að við klárum þetta þing með skilvirkum hætti. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í mörgum málum ekki lagt öðrum þingflokkum á vettvangi Alþingis lið í því að hafa störfin skilvirk, til að mynda er hægt að nefna málefni stjórnarskrárinnar í þeim efnum.