136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:25]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér kom fram fullkomlega eðlileg spurning til hæstv. forseta um hvenær þau mál sem boðuð voru af hæstv. forsætisráðherra kæmu fram. (Gripið fram í.) Við erum að ræða um fundarstjórn forseta sem auðvitað hefur stjórn á þinginu og hlýtur að óska eftir því að hægt verði að fá þessi mál fram þannig að hægt verði að ljúka þingstörfum eðlilega fyrir kosningar. Þessi viðkvæmni Framsóknarflokksins gagnvart því að hæstv. forseti sé spurður að því hvort hann hafi innt hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort hann ætli að leggja fram þau mál sem voru boðuð, einmitt í sambandi við framlagningu málsins um Seðlabanka Íslands.

Ég álít að þetta sé fullkomlega eðlileg spurning og nær væri fyrir hv. þingmenn að óska eftir því að fá þessi mál hér fram þannig að það væri hægt að ræða þau, ræða vanda heimilanna, vanda fyrirtækjanna og efnahagsvandann í landinu. Þannig að við gætum klárað þingið (Forseti hringir.) með sæmilegum brag en værum ekki að ræða einstök mál sem eru svona pjattmál fyrir einstaka þingmenn.