136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:29]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var ágætt að þessar skýringar komu fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Þetta er einmitt staðan í nefndum þingsins núna, að hv. þingmenn Vinstri grænna og hv. þingmenn Samfylkingarinnar geta ekki komið sér saman um þau mál sem á að taka út úr nefndunum. Það þýðir að við bíðum í ofvæni eftir því að fá þessi góðu mál inn í þingið til þess að geta lokið umfjöllun um þau.

Ég vænti þess að a.m.k. þetta ágæta mál, greiðsluaðlögun, komi hér inn. En það er fjöldi annarra mála í nefndum sem hv. þingmenn stjórnarminnihlutans hafa ekki getað komið sér saman um. Væntanlega munu hv. þingmenn Framsóknarflokksins hjálpa til í því, ef ég þekki þá rétt. Þeir muni hjálpa til við að koma þessum málum út ef þeir ætla að sýna fram á (Gripið fram í.) að þeir séu hluti af þeim stóra stjórnarflokki sem stýrir landinu um þessar mundir.