136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta og vegna dagskrárinnar sem liggur fyrir. Það er alveg rétt að það er margt hægt að ræða hér og við munum að sjálfsögðu einhenda okkur í það. Hins vegar eru mörg mál sem við söknum eindregið hér. Til dæmis liggur nú þegar fyrir þingskjal með meiri hluta þingmanna, meiri hluta þingsins, sem snertir hvalveiðar á Íslandi. Við fáum málið ekki einu sinni á dagskrá. Það snertir hundruð starfa í landinu en ríkisstjórnin segir: Nei, þetta mál má ekki komast á dagskrá. Þetta er að mínu mati aðfinnsluvert og ég tel að forseti þingsins eigi að skoða þetta sérstaklega hvað þetta mál varðar.

Síðan kom einnig fram athyglisverð athugasemd frá hv. þm. Ólöfu Nordal. Það kom fram í morgun á fundi nefndarinnar að mál um greiðsluaðlögun fékkst ekki tekið út úr nefnd vegna þess að stjórnarflokkarnir komu sér ekki saman um afgreiðslu þess. Mér finnst það stórmál ef stjórnarflokkarnir sjálfir standa í vegi fyrir því að mikilvæg mál sem við sjálfstæðismenn viljum koma út úr þinginu og afgreiða eru (Forseti hringir.) stoppuð í þingnefnd af hálfu þingmanna Vinstri grænna.