136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

leikskólar og grunnskólar.

390. mál
[16:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2008, um leikskóla, og lögum nr. 91/2008, um grunnskóla. Það sem um er að ræða er að misræmi er annars vegar á milli 18. og 27. gr. laga nr. 91/2008 og 9. gr. laga nr. 90/2008 og hins vegar 2. mgr. 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Þetta varðar rétt forsjárlausa foreldra.

Til að taka af allan vafa um að þessa misræmis gæti og til að vilji nefndarinnar þegar lög um leik- og grunnskóla voru samþykkt á þinginu 2008 komi skilyrðislaust fram, er þessi breytingartillaga við lögin lögð fram. Það skiptir máli fyrir barnið sjálft, það skiptir máli fyrir forsjárlaust foreldri að það hafi upplýsingar sem snerta velferð barns síns jafnt í námi sem öðru. Því eru lagðar til breytingar á báðum þessum lögum, nr. 90/2008 og 91/2008, til að réttur forsjárlausra foreldra sé tryggður og ekki ríki réttaróvissa í þessu vegna þess að það er hagur barnsins sem skiptir máli, þ.e. hagur barns umfram hag foreldra og hér er verið að gæta hags barnsins.

Því segi ég, hæstv. forseti, að þetta frumvarp er til bóta, það er til bóta fyrir forsjárlausa foreldra og það er til heilla fyrir barnið sjálft.