136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

grunnskólar.

421. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, og ég held að hún muni nokkurn veginn rétt þá tölu sem talað er um að kostnaðurinn sé við hin samræmdu könnunarpróf í 10. bekk, að vissulega er þetta líka sparnaðartillaga, en það er ekki meginástæðan þó að það skipti auðvitað máli. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta eitt og sér dugar ekki til að tryggja rétta niðurstöðu hjá ríkissjóði hvorki á þessu ári né næsta.

Einnig er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er afar mikilvægt að vandað sé vel til verka þegar tekið er til í ríkisrekstrinum. Það ábyggilega hægt að taka til í menntakerfinu en það er hins vegar afar mikilvægt hvernig að því er staðið því að ljóst er að við megum ekki við því að draga úr þjónustu í því kerfi, við þurfum að tryggja hana áfram vegna þess að við erum að undirbúa framtíðina í menntakerfinu. Þar eru ýmis verkefni sem við þurfum að efla og styrkja en við þurfum líka að horfa raunsætt á málin. Það er þess vegna það almikilvægasta fyrir íslensku þjóðina að hér verði við völd eftir næstu kosningar ríkisstjórn sem hefur kjark, dug og þor til að taka þær ákvarðanir sem þarf að taka í ríkisfjármálum og þar þarf m.a. — af því að við ræðum hér menntamál — að verja menntakerfið alveg sérstaklega en þar þarf auðvitað líka eins og alls staðar annars staðar að fara vel með fjármuni ríkisins.

Ég trúi því reyndar að í gegnum tíðina hafi það verið gert í hinu íslenska menntakerfi og þar hafi verið gert ýmislegt gott og margt í raun og veru mjög gott á undanförnum missirum. Og svo ég launi hv. þingmanni til baka þau hlýju orð sem féllu í minn garð þá held ég að hv. þingmaður hafi staðið sig býsna vel sem menntamálaráðherra.