136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

grunnskólar.

421. mál
[16:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 91/2008, um grunnskóla, þar sem lagt er til að ákvæði til bráðabirgða V við lögin falli brott.

Menn þurfa aðeins að velta fyrir sér að ekki er verið að ræða um samræmdu prófin eins og þau voru á árum áður í 10. bekk. Hér er verið að ræða um samræmt könnunarpróf sem nýju grunnskólalögin leggja til að lögð verði fyrir að hausti til þess að virka sem leiðsagnarmat fyrir nemendur og kennara um það sem betur má fara fyrir nemandann þar til hann lýkur grunnskóla í 10. bekk.

Hér er um samræmt könnunarpróf að ræða sem verið er að leggja til að verði fellt niður einfaldlega vegna þess að það mun ekki undir nokkrum kringumstæðum nýtast nemendum sem leiðsagnarmat né heldur mun það vera til gagns fyrir framhaldsskólann til að rýna í því að þetta próf verður ekki sem inntökupróf í framhaldsskóla, óskylt því sem var áður með eldra samræmda prófið.

Ég held hins vegar, hæstv. forseti, að vert sé að taka aðeins umræðuna um könnunarprófin og að þau voru sett inn í stað samræmdra prófa eins og þau voru áður og leggja áherslu á mikilvægi þess að könnunarpróf eiga að virka sem leiðsagnarmat fyrir nemanda og fyrir kennara til að bæta úr því sem betur má gera nemandanum til heilla áður en hann yfirgefur grunnskólann.

Það sem hins vegar mun skipta enn meira máli, hæstv. forseti, er að nú reynir á sjálfstæði skólanna samkvæmt nýjum grunnskólalögum í að þeir efli námsmatið, að þeir gefi nemendum tækifæri á enn fjölbreyttara námsmati en verið hefur sem sýni betur hæfni einstaklinganna í hverri og einni grein og því sem lýtur að þeim. Einnig skiptir afar miklu máli, hæstv. forseti, að skólarnir, hvar svo sem þeir eru staðsettir á landinu, hugi að því að matið sem þeir setja með nemendum sínum þegar þeir útskrifast úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla standist, að nemandinn standi virkilega undir því mati sem fylgir honum úr hlaði úr grunnskóla á nákvæmlega sama hátt og það er skilyrt að nemendur standi undir því mati sem fylgir þeim sem útskrifast úr framhaldsskóla yfir í háskólann.

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að nefna þetta vegna þess að margir hafa litið á samræmdu prófin sem beinan lykil fyrir nemendur inn í framhaldsskólann og ekki treyst skólaeinkunnum. Ég er ekki ein þeirra, ég þekki skólann og ég treysti skólunum en ég veit að nú reynir meira á skólana en nokkru sinni fyrr, að þeir standist þær kröfur sem stigið fyrir ofan setur til skólans, setur til menntunarinnar, setur til nemandans hvort heldur um er að ræða skilin á milli grunn- og framhaldsskóla eða framhalds- og háskóla. Fyrir nemandann verður að vera hægt að treysta því að það mat sem fylgir honum af hvoru skólastigi yfir á hitt sé réttmætt, það sé raunfærnimat og nemandinn standist þær kröfur sem gerðar eru til hans á skólastiginu yfir ofan.

Þetta mun skipta meginmáli í þeim breytingum sem gerðar voru á grunnskólalögum 2008 og því sem við erum hér að fella niður. Grunnskólinn mun þá á hausti komanda 2009 í fyrsta sinn fá inn í skólann samræmt könnunarpróf í 10. bekk, sem er samræmt því sem verið er að gera í 4.–7. bekk, til þess að leggja fyrir nemendur sína í þeirri trú, hæstv. forseti, að skólinn nýti sér síðan þetta próf sem leiðsagnarmat fyrir nemendur því að það mun skipta meginmáli.

Ég styð að sjálfsögðu fram komið frumvarp til breytinga á lögum, eins og menntamálanefndin öll, og vil þakka nefndinni fyrir sérlega gott samstarf í þessum efnum. (Gripið fram í: Eins og öðrum.)