136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

náms- og starfsráðgjafar.

422. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Menntamálanefnd hefur fjallað um frumvarp til laga um náms- og starfsráðgjafa sem nefndin lagði sjálf fram en málinu var vísað til nefndarinnar eftir 1. umr. Nefndinni bárust nokkrar umsagnir sem hún fór yfir og ræddi nokkur atriði sem þar komu fram.

Niðurstaða nefndarinnar var að frumvarpið sem slíkt kemur til móts við þær kröfur eða athugasemdir sem fram komu frá umsagnaraðilum og leggur nefndin því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Rétt er að fara örfáum orðum um það sem málið snerist kannski fyrst og fremst um, en segja má að það hafi aðallega verið spurningin um þá sem nú gegna störfum náms- og starfsráðgjafa í skólum án þess að hafa til þess formlega menntun. Niðurstaða nefndarinnar er að eðlilegt sé að þeir geti að sótt um það til matsnefndar að gegna þeim störfum áfram og kalla sig náms- og starfsráðgjafa. Nefndin og síðan ráðherra veita slíka heimild.

Nokkrir stungu upp á því að þetta yrði tímabundið. Nefndin telur hins vegar eðlilegt að lögin geri ekki ráð fyrir slíku en hins vegar sé hugsanlegt að í reglugerðarákvæði sem ráðherra setji sé hægt að fara yfir slíkar heimildir. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ráðherra geti sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laganna og þar með reglu um skilyrði fyrir veitingu leyfis og hvernig staðið er að veitingu og afturköllun leyfis. Við teljum eðlilegra að taka slíkt fyrir í reglugerðarákvæði en festa það í lögin sjálf.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er þetta frumvarp lagt fram af nefndinni og hún leggur til að það verði samþykkt óbreytt. Eins og með önnur mál sem ég hef gert grein fyrir í dag er algjör samstaða í menntamálanefnd um þessa afgreiðslu og frumvörpin. Þar sem þetta er síðasta málið sem ég mæli fyrir frá nefndinni, a.m.k. að sinni, þó að það sé ekki það síðasta, vil ég nota tækifærið og þakka nefndinni fyrir sérstaklega gott samstarf og að í tíð minni sem formaður hennar hafi tekist að ljúka öllum málum í fullri sátt og með algjörri samstöðu nefndarmanna.