136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leiðrétta það sem ég sagði hér áðan, að þessi málaflokkur hafi flust yfir um síðustu áramót, það er alveg rétt, það var um þarsíðustu áramót, en hafði líklega áhrif á að þetta var eitt af þeim málum sem á einhvern hátt datt upp fyrir í þeim atgangi sem var hér við afgreiðslu fjárlaga, tel ég að hafi verið. Alla vega er frumvarpið komið fram og uppfært og uppreiknað með þessum hætti og allar verðbreytingar yfirfarnar af fjármálaráðuneytinu, og ég dreg þær ekkert í efa.

Hvað varðar nefskattinn í Framkvæmdasjóð aldraðra tek ég undir það að þetta er hluti af stærri heild sem þarf virkilega að endurskoða. Málið snertir m.a. greiðslur aldraðra sem nota þjónustu dvalarheimila, greiða þar til heimilisins eftir tekjum, þ.e. einstaklingur heldur eftir ákveðnum tekjum, en þeir sem eru tekjulitlir fá greidda vasapeninga. Þetta er kerfi sem ég tel að við séum ekki tilbúin til þess að láta viðgangast miklu lengur. Þetta er greiðslukerfi sem hefur verið óbreytt um langan tíma og ég heyri ekki betur en að það sé samhljómur hjá öllum stjórnmálaflokkum um að endurskoða þessa greiðsluþátttöku aldraðra í öldrunarþjónustunni og þá sérstaklega hvað varðar dvalarheimilisgjöldin og eins í Framkvæmdasjóð aldraðra, að þetta verði að endurskoða í einni heild. Öðru get ég ekki svarað.