136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[17:44]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er reyndar um tvö ólík mál að ræða, annars vegar Framkvæmdasjóð aldraðra, sem lagt var upp með til þess að byggja upp hjúkrunarheimilin, hjúkrunarrýmin — þar er ákveðið fjármagn, sem mig minnir að sé um milljarður á ári, til skiptanna til þess að byggja upp hjúkrunarheimili og hjúkrunarrými. Til skamms tíma var hluti af því fjármagni sem fer í Framkvæmdasjóð aldraðra lagður til reksturs en það var aflagt fyrir nokkrum missirum þannig að núna fer það eingöngu til uppbyggingar.

Ég velti því einmitt fyrir mér núna hver sé staðan í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Mjög mikið var kallað eftir því um síðustu kosningar að byggja frekar upp hjúkrunarrými og maður veltir því fyrir sér hver staðan er, hvort haldið er áfram þeirri áætlun sem lagt var upp með í ágúst eða september á síðasta ári þar sem gert var ráð fyrir að byggja ætti milli 400 og 500 hjúkrunarrými til ársins 2010. Maður hefur í rauninni afskaplega lítið heyrt af þeim áætlunum, hvort þær muni standa.

Hitt málið sem hv. þingmaður talaði um varðar greiðsluþátttöku aldraðra til reksturs heimilanna og vissulega er ástæða til að skoða það nánar. Það er hins vegar alveg ljóst að ef taka ætti það til gagngerrar endurskoðunar mundi það kalla á aukið fjármagn frá ríkinu og við erum ekki beinlínis í þeirri stöðu að auka greiðslur til reksturs hjúkrunarheimila frá því sem nú er. Á hinn bóginn má auðvitað skoða aðrar áherslur, fækkun hjúkrunarrýma og aukna aðstoð heima, sem er mun betri kostur fyrir mjög marga.