136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[17:48]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að ræða öldrunarmál þó að það sé undir svolítið sérkennilegum lið, um Framkvæmdasjóð aldraðra. En fyrst tilefnið gefst get ég ekki annað en staðið upp og tekið til máls í þessum málaflokki sem ég þekki nokkuð vel.

Áherslur í þessum málaflokki hafa breyst mjög mikið á undanförnum árum. Í gegnum tíðina hefur verið lögð mjög mikil áhersla á byggingu hjúkrunarheimila, hjúkrunarrýma fyrir aldraða, og meira að segja er svo komið að við erum með einna flest hjúkrunarrými miðað við höfðatölu á Norðurlöndum. Það segir okkur að við höfum lagt allt of mikla áherslu á steinsteypuna, á að byggja upp hjúkrunarrými, að stuðla að því að fólk leysi upp heimilið og fari inn á hjúkrunarheimili jafnvel fyrr en ástæða er til. Það segir mér rannsókn sem gerð var í Hafnarfirði fyrir 2–3 árum síðan á vegum nefndar þar sem skoðuð var þörf fyrir hjúkrunarrými í Hafnarfirði og breyttar áherslur í öldrunarþjónustu. Þá voru m.a. einstaklingar, sem voru þegar komnir inn á hjúkrunarheimili, spurðir hvort þeir hefðu treyst sér til að vera lengur heima hjá sér hefðu þeir fengið aukna hjálp. Það kom í ljós að 40% þeirra sem svöruðu og voru þegar komnir inn í hjúkrunarrými töldu sig hafa getað verið lengur heima ef nauðsynleg hjálp hefði verið til staðar. Þau skref sem tekin hafa verið á síðustu missirum varðandi aukna samhæfingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu hafa orðið þess valdandi að hægt er að samhæfa betur þá þjónustu sem fólk þarf á að halda heima hjá sér. Með því móti er hægt að styðja aldraða einstaklinga sem ekki hafa fulla getu til að sjá um heimilið og um eigin þarfir, til að vera lengur heima.

Oft er það öryggisþátturinn sem veldur því að fólk telur sig ekki geta verið lengur heima og stundum þarf ekki mjög flókin ráð til þess að hjálpa fólki. Það þarf ákveðið stuðningskerfi eða öryggi með nærveru og þess háttar og reglulegu innliti. Það sem ég hef séð gerast á síðustu missirum og kannski árum, er að íslensk stjórnvöld gera sér smám saman grein fyrir því að við höfum lagt rangar áherslur í öldrunarþjónustu. Samtök aldraðra hafa komist að sömu niðurstöðu, þau voru kannski búin að komast að þeirri niðurstöðu áður en stefnumótun stjórnvalda um þetta mál var gerð því að hinir öldruðu sjálfir og samtök þeirra hafa lagt mikla áherslu á að gera fólki betur kleift að vera lengur heima en verið hefur, lagt áherslu á þjónusturými og slíkt.

Við höfum líka séð að úti á landi eru dvalarrými á undanhaldi. Við erum með um tæplega 3 þúsund hjúkrunarrými í landinu. Það eru sem sagt um 3 þúsund einstaklingar í hjúkrunarrýmum og eru um það bil 25% þeirra sem eru 80 ára og eldri í hjúkrunarrýmum sem er allt of há tala. Hún er hærri en annars staðar en síðan eru hátt á annað þúsund dvalarrými. Dvalarrýmin eru í raun og veru oft samþætt hjúkrunarrýmunum en fólk sem fer þangað gæti í flestum tilvikum bjargað sér heima með góðum stuðningi. Dvalarrýmin eru á undanhaldi og í þeim sveitarfélögum — sveitarfélögin sjá um dvalarrýmið, ríkið sér um hjúkrunarrýmin gróflega séð. En þar sem sveitarfélög hafa sinnt því hlutverki að bjóða upp á þjónustuíbúð fyrir aldraða, annaðhvort til kaups eða til leigu, hefur eftirspurn eftir dvalarrýmum minnkað mikið því að aldraðir einstaklingar vilja ekki fara á dvalarheimili. Það gefur okkur í raun aukið svigrúm til að koma líka til móts við þá kröfu sem hefur verið mjög sterk á undanförnum árum um einbýli fyrir aldraða. Á mörgum stöðum er ekki boðið upp á einbýli einvörðungu heldur eru aldraðir settir jafnvel með ókunnugum í herbergi og hefur það verið mjög gagnrýnt. Minni áhersla á dvalarrýmin gefur aukið svigrúm til að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými smám saman, fækka fjölbýlunum og fjölga einbýlunum. Það er í raun og veru mjög hentugt.

Við verðum þá að auka heimaþjónustu við aldraða og má bæta þá þjónustu verulega og auka hana mjög mikið áður en komið er upp í kostnaðinn við hjúkrunarrými. Hjúkrunarrými kostar um yfir 20 millj. í uppbyggingu en það kostar 6 milljónir í rekstri á ári að aðstoða einstakling heima, að maður geta verið heima hjá sér lengur, sú aðstoð þarf að vera býsna mikil áður en hún nær 6 milljónum þannig að hún sé hagkvæmari og þannig í mörgum tilvikum betri fyrir hinn aldraða.

Við ræddum aðeins um lyfið Tysabri fyrr í dag og hefur verið metið að um það bil 100 einstaklingar gætu haft gagn af þessu lyfi. Það eru um 330 MS-sjúklingar í landinu en samkvæmt grein sem birtist í haust eftir Sverri Bergmann og Helga Helgason taugalækna á Landspítalanum eru um 85 einstaklingar, að þeirra mati, af þessum 330 sem geta haft gagn af Tysabri til að bæta líðan og lífsgæði. Kostnaður við hvern einstakling með Tysabri er 5 millj. á ári. Þegar við setjum það samhengi við aldraða einstaklinga sem eru inni á hjúkrunarheimilum hljótum við að spyrja okkur hvort við forgangsröðum rétt ef við erum með of mörg hjúkrunarrými. Við getum fækkað hjúkrunarrýmum og bætt heimaþjónustuna en að sama skapi getum við komið til móts við þann fjölda, um það bil 100 einstaklinga, sem gætu tekið Tysabri sem er ungt fólk og þarf ekki að hafa mörg orð um það hvaða áhrif það hefur á líf þeirra. Þau hafa sagt það sjálf hvernig líf þeirra hefur gerbreyst við að fá þetta lyf en aftur verðum við líka að hafa það í huga að það getur ekki gagnast alveg öllum og það er kannski það erfiða í þessu.

Hv. þingmaður talaði áðan um greiðslu aldraðra til heimilanna, hvernig þær eru. Almenn sátt er um það í samfélaginu þegar einstaklingur leggst inn á hjúkrunarheimili að þær tekjur sem hann hefur af lífeyrisgreiðslum eða af almannatryggingum falli að einhverju leyti til til að greiða fæði og húsnæði þó að þær fari ekki mikið í að greiða þjónustuna. Ég hef ekki heyrt marga segja að alfarið eigi að leggja niður greiðslur aldraðra til heimilanna. Það verður að segjast eins og er að kjör aldraðra hafa batnað verulega á síðustu árum. Með hverju árinu eru lífeyrissjóðstekjur þeirra hærri og stærri hluti af tekjum þeirra í formi lífeyrissjóðstekna og þá á móti minnkandi tekjur frá almannatryggingunum. En á hinn bóginn höfum við líka gert ákveðnar breytingar í þessa veru á síðustu árum þannig að það sem áður var um 70% af lífeyrissjóðsgreiðslum sem höfðu áhrif á upphæð almannatrygginga, þá fjárhæð sem hinn aldraði eða lífeyrisþeginn fær frá almannatryggingum, hafa eingöngu 25% lífeyrissjóðstekna áhrif á tekjur almannatrygginga. Það eru því til hópar aldraðra sem eru með þokkalegar tekjur og ég held ekki að það sé ágreiningur um að þeir taki þátt í greiðslum að einhverjum hluta hvað varðar húsaskjól og mat sem þeir hefðu annars greitt ef þeir héldu eigin heimili. Ég held að það sé viðmiðunin sem við þurfum að nota. Það á ekki að vera svo að það sé þrýstingur á að fólk fari inn á hjúkrunarheimili vegna þess að það þarf að halda heimili og borga fyrir það að öðrum kosti.

Það eru mörg atriði sem þarfnast skoðunar í þessu og þar sem við erum að ræða um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra sem hefur verið um það bil 1,2 milljarðar á ári sl. tvö ár — þetta fé hefur komið að verulegu gagni við uppbyggingu og endurbætur á hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum. Í ljósi breyttra hugmynda um stuðning við hinn aldraða og upplýsinga og samanburð við Norðurlöndin, hljótum við að draga þá ályktun að við höfum lagt of mikla áherslu á uppbyggingu hjúkrunarrýmanna. Það segir okkur líka að meðallegutími innan hjúkrunarrýmis er um þrjú og hálft ár á meðan að á hinum Norðurlöndum eru það um tvö ár. Það segir jafnframt okkur að fólk fer of frískt inn, við höfum ekki séð því fyrir nægilegum stuðningi til að vera lengur heima. Þetta eru þættir sem við þurfum að taka til skoðunar í þessu sambandi.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um Framkvæmdasjóð aldraðra en tel að sú umræða sem ég tók upp áðan varðandi nefskatt eigi fyllilega rétt á sér. Nefskattur er óréttlátur og hann leggst á alla sem eru á ákveðnum aldri — mig minnir að það séu allir yfir 18 ára eða 16 ára aldri og undir sjötugu — sem borga þessa upphæð á hverju ári, burt séð frá tekjum. Sá sem eru með lágar tekjur greiðir því hlutfallslega hærra í þennan sjóð. Sú umræða hefur komið upp á hverju ári en hún hefur verið réttlætt með því að þarna fari fé í verðug verkefni.

Það er eitt sem ég vildi taka fram að lokum: Það varð töluverð breyting varðandi ákvörðunartöku um innlögn á hjúkrunarheimili eftir áramótin í fyrra, fyrir rúmu ári síðan. Þá var gerð breyting á reglugerð um vistunarmat einstaklinga. Áður gátu hjúkrunarheimilin í rauninni valið úr stórum hópi manna og kvenna. Þeir tóku ákvörðun um hver ætti að fara í hjúkrunarrými eða á hjúkrunarheimili sem varð til þess að oft fór sá sem ekki hafði mesta þörf fyrir innlögn inn á hjúkrunarheimili. Á Landspítala var því stöðugt ákall um að breyta reglum í þá veru að þeir sem veikastir væru færu inn. En þeir sem voru innlyksa á Landspítala, höfðu lokið meðferð við sjúkleika sínum en voru í raun og veru í geymslu, ef ég má orða það þannig, eða í bið eftir að komast inn á hjúkrunarheimili, höfðu ekki forgang inn á hjúkrunarheimili. Það breyttist ekki fyrr en þessari reglugerð var breytt þannig að val hjúkrunarheimila um hverjir færu inn var þrengt verulega. Í staðinn fyrir að geta valið úr nokkrum tugum einstaklinga, þess vegna fólki úti í bæ og ekki í eins mikilli þörf, var eingöngu valið um þrjá einstaklinga. Það hefur því gerbreytt aðstöðunni inni á Landspítala eins og hv. þm. Þuríður Backman veit því að það hefur verið rætt í hv. heilbrigðisnefnd að gangainnlagnir eru ekki lengur til staðar, biðlistar aldraðra eftir þjónustu á hjúkrunarheimilum á spítölunum eru í lágmarki sem hefur þýtt að spítalinn hefur getað sinnt fleiri verkefnum og stytt biðlista í akútaðgerðum eða valkvæðum aðgerðum, m.a. í liðskiptaaðgerðum, augnsteinaaðgerðum, hjartaþræðingum og slíku. Það segir okkur hvað lítil ákvörðun getur haft gríðarlega mikil áhrif og ekki síst áhrif á lífsgæði einstaklinga því að fátt er ömurlegra en að vera aldraður einstaklingur og bíða eftir hjúkrunarrými, búinn að ljúka meðferð og er jafnvel fluttur á milli deilda með viðvarandi óöryggi og þar að auki við aðstæður sem ekki eru boðlegar því að í hjúkrunarrými á fólk að geta verið í sínu eigin umhverfi og í sínum eigin fötum og með eigin hluti í kringum sig. Sjúkrahúslega þýðir náttúrlega lega inni á spítala þar sem fólk er í sjúkrahúsklæðnaði. Það gerist mjög oft að hinum aldraða hrakar verulega meðan hann bíður eftir hjúkrunarrými.

Ég vildi sérstaklega taka þetta fram til að sýna fram á hvað lítil ákvörðun getur haft gríðarlega mikil áhrif innan alls kerfisins og bætt líf margra, ekki bara hinna öldruðu heldur einnig þeirra sem bíða eftir öðrum aðgerðum inni á spítala.

Ég lýk nú máli mínu varðandi nefndarálit frá félags- og tryggingamálanefnd um Framkvæmdasjóð aldraðra þar sem verið er að hækka gjaldið um 6,1% sem mun leiða til hækkunar á framlagi til framkvæmdasjóðsins. Mér er kunnugt um að þegar hefur auglýst verið eftir umsóknum og samkvæmt reglum Framkvæmdasjóðs aldraðra er eingöngu hluti af framkvæmdum fjármagnaður gegnum sjóðinn. Við hljótum að spyrja okkur hvernig þeir sem huga nú að framkvæmdum í uppbyggingu hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma, muni fjármagna bygginguna. Þá á ég við sveitarfélög í þeim tilvikum sem þau standa á bak við framkvæmdir en einnig hafa sjálfseignarstofnanir eða einkaaðilar gert það. Aðgangur að fjármagni er ekki hinn sami og hann var áður og því hljótum við að skoða í framhaldi af því hvaða áhrif efnahagsástandið hefur á nákvæmlega þessa þætti. Kannski verður það til að við hugleiðum stefnumótun í öldrunarþjónustu með öðrum hætti og þær breytingar sem ég hef verið að ræða um að þurfi að gera, þær áherslubreytingar gangi þá e.t.v. fyrr fyrir sig sem mundi vera til góða fyrir alla að mínu mati, til góða fyrir einstaklingana og ekki síður fyrir ríkissjóð.