136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kaus að fara í stutt andsvar við hv. þm. Ástu Möller, ekki það að ég vilji mótmæla því sem hún sagði heldur til að hnykkja aðeins á varðandi nefskattinn því að vissulega eru nefskattar alltaf meira íþyngjandi fyrir þá sem eru tekjulitlir en tekjumeiri. Það er bara eðli nefskattsins. Ég tel að það sé full ástæða til að skoða þennan tekjustofn og samhliða að horfa til lengri tíma, hvernig við viljum hafa öldrunarþjónustuna hér á landi, hvar áherslurnar eiga að vera, hver aðkoma sveitarfélaganna eigi að vera og hverjar skyldur þeirra, hverjir tekjustofnar sveitarfélaganna eigi að vera ef færa á meira yfir á sveitarfélögin. Þetta er mjög áhugaverð umræða sem væri gott að taka alveg sérstaklega um stefnumótun í þjónustu við aldraða.

Varðandi dvalarheimilin þá reka sveitarfélögin þau í dag. Það þarf sannarlega að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna ef þau ætla að standa undir styrkari öldrunarþjónustu en þau gera. Ég tel að þó svo að dvalarheimilisuppbyggingin sé á undanhaldi í þéttbýlinu muni hún þurfa að vera til staðar um einhvern tíma þar sem hinum dreifðu byggðum er þjónað, bara vegna fjarlægðarinnar. Það er mikilvægt að muna eftir því að búseta í miklu dreifbýli langt inn til sveita kallar á annars konar þjónustu eða getur þýtt annars konar þjónustu þegar fólk eldist. Alla vega þurfa sveitarfélögin að vera tilbúin til að veita miklu meiri heimaþjónustu og heimahjúkrun en þau gera í dag ef sinna á því fólki.