136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er það rétt að víða þar sem dvalarheimili eru rekin eru aðstæður ekki sem skyldi. Þetta eru kannski nokkurra ára gömul hús, þau þurfa jafnvel ekki að vera mjög gömul til að uppfylla alls ekki þær kröfur sem gerðar eru í dag. Þá var allt annar hugsunarháttur, það var verið að uppfylla allt aðrar þarfir en við gerum kröfur til í dag.

Ég veit að sveitarfélögin hafa mikinn hug á því að gera þarna breytingar, að þjóna fólki betur, að bjóða upp á einbýli, en það vantar fjármagn til þess. Við þurfum að vera metnaðarfull fyrir hönd aldraðra og tryggja að sveitarfélögin geti sinnt þessari þjónustu eins og annarri.

Ég tel að þetta sé líka spurning um mannréttindi, að aldraðir geti búið í heimabyggð, kjósi þeir svo. Að ekki þurfi að flytja fólk hreppaflutningum á milli sveitarfélaga til að fá betri þjónustu, til að komast í hjúkrunarrými. Það þýðir líka að á dvalarheimili eða í þjónustuíbúðum verður oft breyting og þörf verður fyrir meiri þjónustu og þá þarf að vera hægt, hvort sem það er á dvalarheimili eða í þjónustuíbúðum, að hafa bæði kvöld-, nætur- og helgarvaktir til að hægt sé að uppfylla þá þörf sem fyrir hendi er. Það er ekki nóg að hafa húsnæði og bjóða bara upp á dagþjónustu, það verður að tryggja þetta öryggi.

Þetta snýst líka um mannréttindi, að aldrað fólk geti búið heima og í sinni heimabyggð. Við höfum þess dæmi á allt of mörgum stöðum að þegar fólk þarfnast ákveðins þjónustustigs verði að flytja það burt úr sinni heimabyggð þó að það vilji hvergi annars staðar vera og sveitarfélagið hafi áhuga og vilja til að þjóna þessu fólki en hefur bara ekki fjármagn til að byggja upp það vaktakerfi sem þarf.