136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

barnaverndarlög og barnalög.

19. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Það gefur tækifæri til þess að gefa eftirfarandi svör: Starfshópnum er ætlað að skila fyrir nóvember 2009, miðað er að því en nú er komið að lokum mars. Meiru get ég í raun og veru ekki svarað en að það er stefnt að þessu. Það skiptir auðvitað miklu máli að við erum nýbúin að samþykkja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það er sá grunnur sem við byggjum á.

Eins og hv. þingmaður nefndi er alltaf álitamál í hvorri nefndinni mál af þessu tagi eigi að vera, í allsherjarnefnd eða félagsmálanefnd. Ég legg á það ríka áherslu að við beitum þeim vinnubrögðum við vinnslu slíkra mála að vísa þeim milli nefnda og fá umsögn og að báðar nefndirnar fari yfir þau. Málinu var í upphafi vísað til allsherjarnefndar sem vísaði því til félagsmálanefndar.

En það er mjög mikilvægt að samlesa og skoða þetta út frá mismunandi sjónarmiðum og það var nú ástæðan fyrir því að ég rakti nefndarálitið svona greinilega áðan, frá orði til orðs. Ég tel líka mikilvægt að þar hafi komið fram hugrenningar eða umræður sem fóru fram í nefndinni þó að það væri ekki akkúrat neglt niður eða rammað þröngt inn í efni frumvarpsins því það er náttúrlega margt sem blandast þarna inn. Til dæmis: Hvað er refsing, hvað er ofbeldi og hvar eru skilin þar á milli? Hvað eru ásættanleg uppeldisskilyrði, og fleira? Öllum slíkum skilgreiningum og framhaldi þessarar vinnu vísum við til nefndarinnar og í heildarendurskoðun svo ekki sé verið að kroppa (Forseti hringir.) í þetta hér og þar.