136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

atvinnuleysistryggingar.

376. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson beindi til mín nokkrum spurningum sem ég ætla að reyna að svara. Þetta er vissulega nýtt úrræði sem var sett á í haust þegar efnahagskerfið okkar, bankakerfið okkar, hrundi og séð var fram á það að atvinnuleysi mundi aukast fram eftir vetri. Nú hefur komið í ljós að þessi aukning mun halda áfram, við erum alla vega ekki komin yfir einhvern tímabundinn kúf. En ég tel að við viljum öll halda í þá von að við munum komast út úr þessu og þá er það bara spurning hvenær. Mér finnst líka mikilvægt að við förum með þær breytingar sem við erum að gera núna sem tímabundnar breytingar. Þetta er nýtt hjá okkur og við skulum þá frekar meta það aftur fyrir næstu áramót hvernig þetta hefur reynst og hvort ástæða sé til að halda þessum úrræðum áfram.

Ég tel að burt séð frá þessu hruni sem við stöndum nú í sé þetta æskilegt. Ákveðnar atvinnugreinar eru sveiflukenndar og í staðinn fyrir að segja upp fólki og ráða inn nýtt fólk, með þeirri umbyltingu sem verður og þeim áhrifum sem það hefur á starfsemi fyrirtækja að vera að fá inn nýtt fólk, getur það verið góður kostur að lækka starfshlutfallið í staðinn fyrir að segja fólki upp og halda í reynslu þeirra sem hafa verið í vinnu.

Vinnumálastofnun þarf sannarlega við þessar aðstæður að hafa meiri möguleika og það lögbundið til að skoða skattskýrslur og annað til að sannreyna að farið sé rétt með.