136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

atvinnuleysistryggingar.

376. mál
[18:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Þuríður Backman muni svara öðrum spurningum í síðara andsvari. Þetta voru margar spurningar og andsvarsformið er of knappt til að ræða jafnmargar spurningar í viðamiklu máli og hér um ræðir. Við erum sammála um að þetta er jákvætt úrræði og mikilvægt. Það hafa komið fram skýringar á því af hverju talið er eðlilegt að miða við árslok í þessu sambandi. Ég get alveg fallist á að ástæða sé til þess fyrir jólin að hugsa þetta. En ég ítreka hins vegar þær áhyggjur sem ég hef af því að ekki verði síður þörf á þessu úrræði á næsta ári eins og á þessu ári. Þó að við vonum að farið sé að hylla undir það að landið geti farið að rísa í sambandi við efnahagsmálin — vonandi sjáum við jákvæða þróun í haust — óttast ég að atvinnuleysið verði enn mikið þegar kemur fram á næsta ár þannig að þetta úrræði verður áfram mikilvægt.

Ég get alveg fallist á að það getur verið mikilvægt og jákvætt að endurskoða þessi lagaákvæði í ljósi reynslunnar og sérstaklega í ljósi þess að þær breytingar sem verið er að fara með í gegnum þingið hafa verið gerðar á stuttum tíma, bæði af hálfu ráðuneytisins og nefndarinnar. Það kann vel að vera að ástæða sé til að fara í meiri endurskoðunarvinnu og ítarlegri yfirferð á málinu þegar kemur fram á haustið og meiri reynsla er fengin af þessu úrræði.