136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild – álver í Helguvík.

[13:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í dag til að ræða örlítið um atriði sem tengjast stjórnmálaástandinu. Um síðustu helgi var haldinn landsfundur hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þar var ályktað um ýmis efni, m.a. um það hvernig sá flokkur sér fyrir sér stjórnarsamstarf á næsta kjörtímabili og verður að segjast að skýrara bónorð pólitískt hefur ekki komið fram mér vitanlega, alla vega ekki á síðari árum hér á landi. Nú verður gaman að sjá hvort Samfylkingin svarar þessu bónorði á landsfundi sínum um næstu helgi og í ljósi þess að greinilega er mikill vilji innan beggja flokka til að starfa saman eftir kosningar hlýtur maður að velta fyrir sér hvernig þeir ætla að nálgast Evrópumálin.

Vinstri grænir ályktuðu nokkuð um þetta og það hefur verið nokkuð skrautlegt að sjá hvaða túlkanir hafa komið úr röðum Samfylkingarinnar á þeim ályktunum. Það verður ekki kallað annað en skapandi túlkanir af hálfu samfylkingarmanna þar sem mikið er lesið í fá orð. Ég vildi spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem skrifaði athyglisverða grein á vefritið Pressuna í gær, út í þetta en hann tekur í þessari grein þá afstöðu að það sé brýnasta málið fyrir okkur í sambandi við efnahagsmálin að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í viðtali á vefsjónvarpi Morgunblaðsins í gær tjáði formaður Vinstri grænna sig um sama mál og hann tók þannig á því máli þar að það séu mörg ár fram undan í það að við getum farið inn í Evrópusambandið og tekið upp evruna og hann segir:

„Það sem ég hef sagt um Evrópusambandsmálin væri mjög hættulegt ef menn segðu bara: Já, heyrðu, við ætlum bara að leysa þetta með því að ganga í Evrópusambandið, og hölluðu sér aftur á bak og tækjust ekki á við verkefnin sem hér eru í okkar samfélagi.“

Þetta sagði formaður Vinstri grænna og (Forseti hringir.) og ég vildi spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hvort hann telji að í þessum orðum felist mikil opnun af hálfu Vinstri grænna á Evrópusambandsaðild.