136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild – álver í Helguvík.

[13:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að í landsfundaráætlun vinstri grænna hafi falist heilmikil opnun á Evrópumálin. Þeir opna á þau þar eins og ég les það að haldin verði tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og í því tel ég vera mikla opnun.

Þessi afstaða vinstri grænna markar að því leyti tímamót og leggur að mínu mati grunninn að veigamesta skrefinu og því mikilvægasta í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið sem er að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Af hverju? Jú, til að koma hér upp samkeppnishæfri mynt, samkeppnishæfum gjaldmiðli og verði aftur á krónuna.

Hv. þm. sjálfstæðismanna, Bjarni Benediktsson, tók í sama streng um liðna helgi, á laugardaginn, og Samfylking og Framsókn og sagði í viðtali við Fréttablaðið að umsókn um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru sé besti kosturinn í stað krónu og kollsteypu, eins og Bjarni Ben. orðaði það í viðtalinu við Fréttablaðið. Þess vegna undrar mig mjög að Evrópusambandið sé ekki nefnt einu orði, eins og kemur fram í frétt í dag, í drögum Sjálfstæðisflokks að landsfundarályktunum sínum um leið og endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins vill að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Þar er sagt berum orðum að endurreisnarnefndin leggi til að sótt verði nú þegar um aðild að Evrópusambandinu og evrópska myntbandalaginu með það að markmiði að ganga í Evrópusambandið o.s.frv. Þetta segir endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins. Um leið er Evrópusambandið ekki nefnt í drögum að landsfundarályktunum. Í þriðja lagi lýsir formannsframbjóðandinn Bjarni Benediktsson því yfir að hann vilji taka upp evru í stað krónu og kollsteypu eins og hann orðar það í viðtali við Fréttablaðið. Ég tek undir með Bjarna Benediktssyni, ég tek undir með Framsóknarflokknum og ég er að sjálfsögðu sammála því sem Samfylkingin hefur barist fyrir um árabil, að sækja um aðild, semja og koma með samninginn fyrir þjóðina. Á það opna Vinstri grænir á landsfundi sínum og það þóttu mér mikil tímamót og þess vegna er beðið eftir því að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir það sem Bjarni Benediktsson sagði í Fréttablaðinu á laugardaginn eða þegir þunnu hljóði og tekur einu sinni enn flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni í þessu mikilvæga máli.