136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild -- álver í Helguvík -- sparnaður í heilbrigðiskerfinu.

[13:49]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Hann samþykkti hér og gekk frá fjárlögum þessa árs með tæplega 7.000 millj. kr. niðurskurði til heilbrigðisþjónustunnar svo ég skil vel áhyggjur hans. Hv. þingmaður hafði sem ráðherra einnig undirbúið skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustunni með tilliti til þessa.

Þegar ný ríkisstjórn tók til starfa 1. febrúar komu áhyggjur hv. þingmanns og fyrrverandi ráðherra glögglega í ljós og hann óskaði strax eftir því að hæstv. ráðherra kæmi fyrir nefndina. Við því var orðið eins fljótt og hægt var þannig að 20. febrúar kom hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir nefndina og gerði henni grein fyrir skipulagsbreytingum og þeirri stöðu sem vinnan við þær var í á þeim tíma. Þær höfðu tekið töluverðum breytingum. Það að gera grein fyrir framkvæmd fjárlaga út árið hlaut að taka mið af þeim breytingum sem voru þá í undirbúningi.

Hv. þingmaður hefur nokkrum sinnum óskað eftir því að fá upplýsingar um framkvæmd fjárlaga, m.a. á síðasta fundi nefndarinnar. Þá strax talaði ég við heilbrigðisráðherra og óskaði eftir því að hann kæmi á næsta fund nefndarinnar og gerði grein fyrir stöðunni með tilliti til framkvæmdar fjárlaga eins og staðan er í dag. Ráðherra eða ráðuneytisfólk mun koma á fund nefndarinnar á fimmtudagsmorgun sem er næsti reglulegi fundur nefndarinnar og vonandi fáum við þá, nefndin öll, (Forseti hringir.) góðar upplýsingar um það hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin ætla að standa að framkvæmd fjárlaga.