136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild -- álver í Helguvík -- sparnaður í heilbrigðiskerfinu.

[13:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli ekki vera hér í salnum þegar við ræðum m.a. um heilbrigðismál þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Þekki ég það mætavel, hv. þm. Árni Páll Árnason. Hér erum við að ræða undir liðnum um störf þingsins um heilbrigðiskerfið þar sem skera þarf niður 7.000 millj. kr. á þessu ári.

Þrír mánuðir eru liðnir af þessu fjárhagsári og ekkert bólar á því hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að klára sig af þeim 7.000 millj. kr. sem niðurskurður í heilbrigðiskerfinu verður fyrir. Þrír mánuðir eru liðnir.

Er þetta ekki lýsandi dæmi, hæstv. forseti, um kjarkleysi hæstv. heilbrigðisráðherra? Hann og hans flokkur ætla sér í kosningarnar 25. apríl án þess að hafa tekið á þeim mikla vanda sem er í heilbrigðiskerfinu til að geta sagst síðar meir hafa verið skilinn eftir með 7.000 millj. kr. niðurskurð.

Þetta er kjarkleysi, hæstv. forseti. Það þarf að grípa til ráðstafana. Þetta er vandi heilbrigðiskerfisins. Þetta er vandi innan fjárhagsáætlunar 2009. Það þarf að gera þetta, hæstv. forseti, og ég harma kjarkleysi hæstv. heilbrigðisráðherra og flokks hans, Vinstri grænna, í þeim heilbrigðismálum sem við stöndum nú frammi fyrir. Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að gera þinginu grein fyrir því með hvaða hætti hann hyggist taka á þeim mikla vanda sem við blasir og ekki láta það bíða til 25. apríl eða bíða nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum. Það, hæstv. forseti, er meira en kjarkleysi, það er dugleysi.