136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild -- álver í Helguvík -- sparnaður í heilbrigðiskerfinu -- verðhjöðnun.

[14:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá að svara jákvæðum fyrirspurnum eins og þeirri sem kom fram hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni áðan um álverið í Helguvík. Þannig vill til að efnahags- og skattanefnd afgreiddi í morgun umsögn um fjárfestingarsamninginn um álverið í Helguvík. Þar segir að nefndin hafi rætt mikilvægi framkvæmdarinnar fyrir atvinnustig á Suðurnesjum og suðvesturhorninu og þær jákvæðu breytingar sem það mundi hafa í för með sér, eins og komið hefði fram hjá fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu — um þau jákvæðu áhrif sem það hefði á tekjustofna sveitarfélaga, húsnæðismarkað og atvinnumarkað með margvíslegum hliðaráhrifum.

Efnahagsáföllin hafa haft neikvæð áhrif á mannvirkja- og þjónustugeira og mikill slaki hefur myndast í hagkerfinu og samdráttur er fyrirsjáanlegur. Því má almennt reikna með að álversframkvæmdir muni hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið, sérstaklega atvinnu- og framleiðslustig, og leggur efnahags- og skattanefnd til að iðnaðarnefnd samþykki frumvarpið um fjárfestingarsamninginn í Helguvík. (Gripið fram í.)

Þetta eru að sjálfsögðu mjög jákvæðar fréttir og þær á að draga fram líka, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi hér áðan. Því er mér ánægjuefni að svara hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, fulltrúa frjálslyndra í nefndinni — hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, áheyrnarfulltrúi, var samþykkur frumvarpi þessu. Ég tel, af því að þingmaðurinn spurði beint, líkur á því að Norðurál takist að halda áfram að byggja upp álverið sem skóflustunga var tekin að í byrjun júní í fyrra og það muni ganga vel. Þeim hefur tekist að endurfjármagna framkvæmdirnar eftir að íslensku bankarnir féllu í haust, það voru gífurlega jákvæð tíðindi. Ég hef átt reglubundin samtöl við þá eins og margir aðrir hér um framvindu þessara mála og ég er bjartsýnn á að framkvæmdirnar við álversskálann í Helguvík verði komnar á hástig í haust. Við getum þannig horft björtum augum fram á það að mjög jákvæðar fréttir komi inn í atvinnulífið hér á suðvesturhorninu og á Suðurnesjunum sem er framhald framkvæmda við álverið í Helguvík.