136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

tilhögun þingfundar.

[14:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á þriðja tug mála liggja fyrir á dagskránni hér í dag. Hægt miðaði með dagskrá þingsins í gær. Það liggur fyrir að fólkið í landinu bíður eftir að við komum þessum málum frá okkur og það er mjög mikilvægt að í störfum þingsins haldist taktur á næstu dögum. Við þurfum að vinna okkur í gegnum þessi mál (Gripið fram í.) og það verður einfaldlega að vera þannig að við göngum frá málum og klárum mál sem eru á dagskránni. Þingmönnum er engin vorkunn að vinna sig í gegnum þau mál sem hér liggja fyrir. (Gripið fram í.) Þessi mál þurfa afgreiðslu og ekki á að draga það að klára mál þegar þau eru tilbúin, þau liggja hér á dagskránni. (Gripið fram í.) Fólkið í landinu á það skilið að þingmenn standi vaktina og ljúki (Gripið fram í.) vinnu við þessi mál.