136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

tilhögun þingfundar.

[14:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. 26 mál eru á dagskrá. Þar af leyfi ég mér að fullyrða að allt aftur til máls 22, ég veit ekki um þau sem eru nr. 23 og aftar, eru samkomulagsmál. Það er enginn ágreiningur um þau. En ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að fara í ágreining um það að aflétta bankaleynd og auka heimildir til hins sérstaka saksóknara? (SKK: Af hverju …?) Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að stöðva frumvarp um ábyrgðir? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að stöðva frumvarp um breytingu á skaðabótum — eða hvað? Hvað eru menn að tala um hér?

Það er enginn vandi, áheyrandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ef þið nennið að vinna vinnuna ykkar að klára (Gripið fram í.) þessa dagskrá fyrir miðnætti. Hér hefur verið fullyrt að það sé til skammar fyrir okkur sem styðjum þessa ríkisstjórn að vilja (Forseti hringir.) halda áfram að vinna. Ég segi bara að Sjálfstæðisflokknum er greinilega ómögulegt að sinna vinnunni sinni ef hann getur ekki sætt sig við dagskrá (Forseti hringir.) sem er fullt samkomulag um. (Gripið fram í.)