136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til að taka af öll tvímæli kem ég í pontu og fullvissa hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson um að stuðningur Vinstri grænna við að falla frá auglýsingaskyldu í þessu tiltekna máli er ekki fyrirheit um stefnubreytingu á vegum flokksins. Við styðjum af heilum hug kröfu um auglýsingar í opinber embætti og störf eins og margoft hefur komið fram. Ég minni á margítrekaðar kröfur þeirrar sem hér sendur um að ekki verði látið dragast lengur að auglýsa eftir bankastjórum og öðrum lykilstjórnendum í nýju bönkunum. Ástæðan fyrir því sem lagt er til af hálfu hv. allsherjarnefndar, og þar á meðal tveggja fulltrúa Vinstri grænna sem þar eiga sæti, er að hér er um sérstakt tímabundið embætti að ræða og menn eru því ekki ráðnir þar til langframa eins og skýrt kemur fram í nefndaráliti. Enn fremur þarf að vera unnt að kalla menn til verkefna án mikillar fyrirhafnar og tíma við að fara í gegnum umsóknarferli.

Ég vil nota þetta tækifæri og fagna því að ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við völdum sett nauðsynlegan og aukinn kraft í starf þessa embættis sem við ræðum nú og ég fagna yfirlýsingu hæstv. dómsmálaráðherra um bættan og styrkari fjárhagsgrundvöll til þess að tryggja öflugra starf embættisins.