136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:11]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil koma því á framfæri að ég var ekki að leggja það til að vinnulöggjöfinni yrði umbylt, síður en svo. Það voru hvorki mín orð né tillaga að réttarreglum á opinberum vinnumarkaði yrði umbylt. Ég var að velta því fyrir mér í ljósi þess að við gerum nú ákveðnar tilslakanir á þeim meginreglum sem gilda á opinberum vinnumarkaði og öll nefndin stendur að, hvort hv. þingmaður teldi að ástæða væri til að líta yfir vinnumarkaðslöggjöfina og kanna hvort á henni þyrfti að gera breytingar með hliðsjón af þeim óvenjulegu aðstæðum sem uppi eru á vinnumarkaði.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það eru ýmis önnur verkefni sem eru þarfari og brýnni eins og endurreisn bankakerfisins og að reyna að koma atvinnulífinu í gang til að verja þau störf sem fyrir eru og búa til ný svo sporna megi gegn atvinnuleysi, svo fólk hafi vinnu, svo það geti greitt af lánum sínum o.s.frv. Því miður hefur talsvert skort á að núverandi ríkisstjórn sinni þeim málum og eins og við ræddum í upphafi þessa þingfundar eru önnur mál sem varða bankana, fyrirtækin og heimilin til umfjöllunar á þessum þingfundi. En menn hljóta a.m.k. að íhuga það að þegar aðstæður eru svona óvenjulegar í samfélaginu, þar á meðal á vinnumarkaðnum, hvort ástæða sé til þess að fara yfir vinnulöggjöfina. Ég er ekki viss um að nauðsynlegt sé að gera breytingar á henni en ég varpaði þessu sjónarmiði fram til umhugsunar. En ég get alveg fallist á það með hv. þingmanni Álfheiði Ingadóttur að það eru önnur og brýnni verkefni sem bíða úrlausnar á þinginu en sú yfirferð.