136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf svo sem ekki að hafa langt mál um þetta. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þær upplýsingar sem hér hafa verið veittar varðandi þá breyttu rekstraráætlun sem hún hefur kynnt. Eins og ég sagði áðan tel ég að það sé til sóma og mikilla bóta að fjölga starfsliði hjá hinum sérstaka saksóknara. Ég fagna þeim fyrirætlunum hæstv. dómsmálaráðherra og ég hygg að við sjálfstæðismenn munum allir standa á bak við þá breytingu. Ég tel að fjölgun hjá sérstökum saksóknara sé mikilvægari en fjölgun ýmissa annarra aðila sem eiga að fara á launaskrá hjá ríkinu sem ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal mun fjalla hér um í ræðu sinni á eftir.

Þetta eru forgangsatriðin sem við eigum að fjalla um. Þetta er forgangsröðin. Við eigum að forgangsraða í krafti þeirra hagsmuna sem í húfi eru og hér eru verulegir hagsmunir í húfi.

Ég vil enn og aftur þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir frumkvæði hennar í þessu máli sem við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu styðja.