136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:39]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig háttar til, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, að enginn ágreiningur er á milli okkar um þetta atriði. Ég gat þess í ræðu minni áðan að hér væri ekki um að ræða almennt frumvarp til þess að afnema eða aflétta bankaleynd heldur væri í þessu tilviki eingöngu verið að fjalla um það með þeim hætti sem þar greindi.

Ég gerði þetta að gefnu tilefni. Ég taldi að af skýringu hv. þingmanns fyrr í dag og ummælum hennar mætti skilja að til umræðu væri frumvarp þar sem almennt væri verið að upphefja bankaleynd og vildi leiðrétta þann misskilning. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að þessi ummæli féllu í hita og þunga dagsins og voru kannski ekki nánar skýrð þá en það hefur ekki vafist fyrir mér að um þetta afmarkaða frumvarp væri að ræða og verið væri að veita rúmar rannsóknarheimildir í þessu ákveðna einstaka tilviki. Það hefur aldrei hvarflað að mér annað en að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir væri mjög meðvituð um að þannig væri málum háttað þó að hugsanlega hefði mátt misskilja orð hennar.

Ef ég hef viðhaft þau orð áðan að þau hefði mátt skilja á þann veg að þingmaðurinn hefði farið með eitthvert fleipur hvað þetta varðar þá var það að ósekju því að ég átti ekki við það. Ég var eingöngu að gera grein fyrir því að þarna hefðu kannski fallið orð sem hefðu verið úr samhengi og hefðu þess vegna getað misskilist því að hér væri ekki um að ræða neina almenna upphafningu á bankaleynd.