136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[16:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lagði í þennan leiðangur vegna þess að mér brá nokkuð þegar hv. þm. Björn Bjarnason kom með þessar upplýsingar í 1. umr. að ágreiningur hefði verið um valdheimildir sérstaks saksóknara. Ég reyndi að grafast fyrir um málið og ræddi það á opinberum vettvangi við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson á þeim nótum. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sakaði þá er hér stendur um rógburð og ég kann því frekar illa að vera sökuð um það, virðulegur forseti.

Með því að fá þessi gögn, lesa þau og sjá þetta svart á hvítu þá er það svo að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem því miður er ekki staddur hérna núna, getur ekki komist upp með það að segja að farið sé með rangt mál. Viðskiptaráðuneytið vildi greinilega ekki að þagnarskyldan mundi víkja þannig að sérstakur saksóknari gæti komist í gögn. Hér með er það þá staðfest að þannig liggja málin. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var ráðherra yfir viðskiptaráðuneytinu og vissi því hvað þar fór fram og blessaði þá pappíra sem þaðan fóru á milli ráðuneyta. Ég held að það sé þá ágætt að menn bara viti það að í upphafi var ekki verið að fara fram með þær heimildir sem hv. þingmaður og þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, vildi.

Við erum að koma því í betri farveg núna. Rétt skal vera rétt og þá er búið að upplýsa það hér.