136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:03]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. samgönguráðherra og spyrja út í og ræða við hann um framgang samgönguáætlunar. Eins og við þingmenn vitum hefur ótal margt breyst frá því að við veturinn 2007–2008 börðumst við aflabrest vegna þorskkvóta og ákváðum að auka verulega við fjármagn til samgönguframkvæmda auk þess sem stórauknum fjármunum hefur verið varið til samgöngumála um nokkurt skeið undanfarin ár.

Í dag eru forsendur gjörbreyttar. Sú samgönguáætlun er þó enn í gildi þar sem gert er ráð fyrir ýmsum framkvæmdum víða um land. Um er að ræða stórkostlegar bætur í vegamálum og áform eru um jarðgöng víða. Við getum nefnt Norðfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, einkaframkvæmd, Sundabraut í Reykjavík o.fl. þar sem áformin voru mikil en væntanlega munu þær hremmingar sem þjóðin hefur lent í hafa veruleg áhrif á hvernig með þessi mál skal fara.

Á fjárlögum ársins var í upphafi gert ráð fyrir að á fjórða tug milljarða króna yrði varið til samgöngumála en í haust eftir hrunið blasti við að nauðsynlegt yrði, og hæstv. samgönguráðherra var knúinn til þess, að skera niður í samgönguráðuneytinu til samgöngumála, herra forseti. Mig minnir að sú krafa hafi verið gerð til samgönguráðuneytisins að skorið yrði niður um 6.000 millj. kr. Það eru verulegir fjármunir en við skulum þá hafa í huga, eins og ég sagði áðan, að menn hafa verið að auka fjármagn verulega til samgöngumála, við höfum gert mjög margt á undanförnum árum, vegabætur hafa orðið miklar, en nú blasir þessi niðurskurður við.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst bera sig að í þeim niðurskurði, hvaða meginsjónarmið verða lögð til grundvallar af hálfu hæstv. samgönguráðherra þegar að þessu kemur. Við vitum að víða um land eru ærin vandamál. Ekki þarf að tiltaka hvernig ástandið er á höfuðborgarsvæðinu þar sem byggingariðnaðurinn er nánast í rúst. Við þekkjum það líka víðar um land að verktakar kveinka sér verulega. Það á við t.d. í Norðausturkjördæmi og víðar. Verkefnið er því ærið og hæstv. samgönguráðherra nokkur vandi á höndum þegar litið er til þess hvar eigi að drepa niður fæti.

Að mínum dómi er engu að síður nauðsynlegt fyrir hæstv. ráðherra að líta til þess hvernig megi skapa byggingariðnaðinum nauðsynlegt súrefni, hvort hægt sé að beita framkvæmdum í samgöngumálum þannig að hægt sé að styðja við byggingariðnaðinn, styðja við verktakana, vegna þess að þarna er um verulegan mannafla að ræða og fyrirsjáanlegt er að ekki verður nein sérstök bót á byggingarmarkaði á næstunni. Við sjáum ekki fram á það. Þvert á móti sjáum við fram á að öflugustu verktakafyrirtækin í landinu eru í slíkum vanda að þau munu jafnvel hverfa inn í bankana. Það eru ekki góð tíðindi.

Ég vil þess vegna beina því til hæstv. samgönguráðherra hvort hann sjái fyrir sér að forgangsraða þurfi fjármunum eftir svæðum. Telur ráðherrann t.d. að veita þurfi aukið fé inn á höfuðborgarsvæðið? Það var auðvitað ekki gert þegar um var að ræða niðurskurð vegna þorskheimildanna, þá var náttúrlega litið sérstaklega til þeirra svæða þar sem niðurskurður var fyrir hendi.

Um leið og horft er til höfuðborgarsvæðisins þarf líka að líta til þess að víða um land eru gríðarleg vandræði. Á Austurlandi hafa menn bundið miklar vonir við jarðgangagerð. Áform eru uppi um jarðgöng til Norðfjarðar og menn hafa beðið töluvert eftir vegabótum þar og jafnframt um Hólmahálsinn og víðar. Það er því spurning hvernig ráðherrann hyggst bregðast við því á þessari stundu.

Er ætlunin af hálfu samgönguráðuneytisins að beina sérstaklega augum að mannfrekum framkvæmdum? Er ætlunin að fara í brúarverkefni í auknum mæli? Er ætlunin að gera breytingar á samgönguáætlun í þá veru? Hvernig lítur hæstv. samgönguráðherra á þær fyrirætlanir sem voru í fyrra og hittiðfyrra um jarðgöng, Sundabraut og Norðfjarðargöng o.fl.?