136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:14]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að hafa forgöngu um þessa umræðu í þinginu.

Á fundi samgöngunefndar 18. desember sl. var farið yfir ýmis samgöngumál eins og gefur að skilja í þeirri nefnd. Á þeim fundi var nefndin að reyna að átta sig á stöðu mála því að eins og allir muna urðu miklar breytingar á fjárlagafrumvarpinu frá því að það kom fram í byrjun október og þar til yfir lauk og alls óvíst um afdrif mjög margra mála.

Á fundinum komu fram upplýsingar frá fulltrúum samgönguráðuneytisins um að haldið yrði áfram með hönnun og undirbúning verka sem eru á samgönguáætlun auk ýmissa fylgiverkefna, eins og það var orðað, svo sem rannsóknar-, þróunar- og tilraunaverkefni og staðlagerð. Hæstv. samgönguráðherra hefur staðfest að þetta hafi verið þau verkefni sem lögð var áhersla á.

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra hvaða verkefni það eru sem helst er unnið að á þessu sviði og ég mundi gjarnan vilja spyrja hann líka um hvað sé að frétta af ýmsum málum, t.d. vegamálum sem eru í samgönguáætluninni. Þar sem ekki hefur komið fram ný samgönguáætlun er ekki vitað hvað verður um þau mörgu verkefni sem þar eru miðað við niðurskurðinn sem farið var í. Ég mundi gjarnan vilja vita hvort það er rétt sem heyrst hefur að horfið hafi verið frá 2+2 útfærslu á Suðurlandsvegi og búið sé að taka ákvörðun um að fara í 2+1 veg á milli Reykjavíkur og Hveragerðis. Þá væri gott að vita í framhaldinu hvernig á að fjármagna þann veg og hvort umferðaræðar út frá höfuðborgarsvæðinu hafi eitthvað verið skoðaðar í þessu samhengi og þá er mér efst í huga Vesturlandsvegur.

Eitt tæknilegt atriði var sérstaklega tekið upp í nefndinni, sem ég tel nauðsynlegt að hæstv. samgönguráðherra taki til athugunar ef hann hefur ekki gert það nú þegar, en það er að ríki og sveitarfélög eru að vinna í samgönguverkefnum á ýmsum sviðum og væri eflaust (Forseti hringir.) gott fyrir ríki og sveitarfélög að taka sig saman um að (Forseti hringir.) samstilla verkefni þannig að mannafli og tæki nýtist sem best í sumar.