136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:16]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Framkvæmd vegáætlunar skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnulíf og búsetu um allt land, hvort sem er í dreifbýli eða þéttbýli. Nú þegar við horfum fram á að það þurfi að forgangsraða fjármunum, m.a. til samgöngumála, held ég að við hljótum að horfa til þess hvar þörfin er mest, bæði til að tryggja jöfnuð og jafnrétti í samgöngum óháð búsetu og einnig til að efla og styrkja atvinnulíf í landinu öllu.

Ég var mjög sammála þeim áherslum sem hæstv. samgönguráðherra lagði hér fram fyrr á árinu og aftur nú, samgöngumannvirki eiga að miða að því annars vegar að vera vinnuaflskrefjandi þannig að það sé hægt að skapa með því atvinnu og jafnframt að þetta séu smærri verk sem tryggi minni verktökum atvinnu og verkefni vítt og breitt um landið. Hins vegar er atriði að það sé bæði innlendur tækjabúnaður og annað sem þar nýtist. Ég legg líka áherslu á, eins og hæstv. ráðherra hefur gert, vegaframkvæmdir úti um land, safn- og tengivegi og stofnbrautir sem hafa verið mjög fjársveltar á undanförnum árum.

Verum minnug þess þegar vegaframkvæmdir voru skornar niður á landsbyggðinni vegna þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Það má ekki henda að þessir sömu landshlutar verði aftur fyrir niðurskurði og skerðingu þegar kreppir að.

Ég minnist mikilvægra vegarkafla á Vesturlandi, Norðurlandi, norður um Strandir, í uppsveitum Borgarfjarðar og vítt og breitt um landið, líka inni í sveitum landsins. Ég skora á hæstv. ráðherra að setja þessar vegaframkvæmdir (Forseti hringir.) núna í algjöran forgang.