136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:18]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er af nógu að taka í verklegum framkvæmdum sem snúa að vegagerð á Íslandi. Svo margt eigum við ógert. Hins vegar höfum við staðið frammi fyrir því að þurfa að skera niður í framkvæmdunum. Samt sem áður er alveg ljóst að það fé sem við ráðstöfum núna til vegagerðar mun að öllum líkindum nýtast okkur mun betur en það gerði á þenslutímanum. Það hefur komið í ljós í þeim tilboðum sem Vegagerðin hefur fengið í þau verk sem hafa verið boðin út að undanförnu.

Það er ekki sami samdráttur í verklegum framkvæmdum og þeim fjárhæðum sem við höfum vissulega þurft að skera niður í núverandi árferði. Okkur miðar áfram og ég fagna alveg sérstaklega þegar unnið er að varanlegum lausnum í vegagerð.

Það þótti nokkuð bratt þegar við lögðum það til í Frjálslynda flokknum að gera 14 jarðgöng á Íslandi og fara með allt þjóðvegakerfið niður fyrir 200 metra hæð yfir sjó. Það eru varanlegar lausnir á samgöngum fólks milli landshluta.

Ég held að flestir séu búnir að sjá það eftir tilkomu Hvalfjarðarganga, Vestfjarðaganga, Eskifjarðar- og Reyðarfjarðarganga og fólk mun líka sjá það þegar Héðinsfjarðargöng koma og Bolungarvíkurgöng að öryggið eykst margfalt.

Sem betur fer höfum við notið þess að ekki hafa orðið slys í þeim göngum sem tekin hafa verið í notkun. Þar hefur orðið mikið og aukið umferðaröryggi. Við eigum að stefna að slíkum lausnum. Við eigum að stytta vegina með því að gera jarðgöng, við eigum að þvera firðina þar sem við getum komið því við án þess að valda neinum náttúruskaða og við eigum að stytta vegalengdir og búa til öruggari vegi. Það er framtíðin.