136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:27]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði sem ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir varðandi framkvæmd samgönguáætlunar, svo sem að spyrja út í flugvellina. Það hefur verið gagnrýnt að þjónusta á ákveðnum flugvöllum hafi verið skorin niður en einnig eru framkvæmdir í gangi og ánægjulegt að vita um framkvæmdir eins og við flugvöllinn á Akureyri. Það var líka ráðgert að kanna möguleika á lengingu t.d. flugvallarins á Bíldudal sem var samþykkt á Alþingi. Ég vildi spyrja hann út í það og eins um fleiri flugvelli.

Ég legg áherslu á að samgöngumálin, hvort sem um er að ræða flug eða vegi, skipta miklu máli í atvinnulegu tilliti. Tökum t.d. ferðaþjónustuna. Það þarf að gæta að forgangsröðun þegar farið er út í niðurskurð og hvar hann kemur niður.

Við samgönguráðherra höfum báðir verið miklir áhugamenn um jöfnun flutningskostnaðar og hvar á vegi hún sé stödd. Hún var líka eitt af verkefnum fyrrverandi ríkisstjórnar og ætti að vera áhersluefni áfram.

Það er ánægjulegt að heyra að margar vegaframkvæmdir sem nú er verið að bjóða út skuli í sjálfu sér vera með hagstæð tilboð sem eru að koma. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort þarna skapist ekki aukið svigrúm til að taka fyrir jafnvel fleiri vegaframkvæmdir en ráðgert var eftir að niðurskurðartillögurnar komu, að með hagstæðum tilboðum verði hægt að draga úr þeim (Forseti hringir.) niðurskurði sem samgöngumálin hafa orðið að taka á sig (Forseti hringir.) í þessum hremmingum.