136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:29]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra þingforseti. Ég hef hér nokkrar spurningar til hæstv. samgönguráðherra Kristjáns L. Möllers, fyrst um það sem lýtur að Bakkafjöru. Er búið að tryggja nóg fé í bryggjuframkvæmdir og hafnargerð í Landeyjahöfn? (EyH: Róbert er búinn að því.) Síðan veit ég að það er ekki frágengið með að láta bjóða út og gera tilboð í nýtt skip sem á að sigla þarna milli lands og Eyja.

Það eru fleiri þættir sem maður er forvitinn að vita hvernig tekst til með í samgöngum, sérstaklega á þessu ári, varðandi t.d. Suðurlandsveginn. Hvað er fyrirhugað þar? Einnig varðandi Reykjanesbrautina í gegnum Hafnarfjörð og Reykjanesbrautina að vestanverðu frá því sem hún var og þar sem tvöföldunin endar í dag.

Síðan er Suðurstrandarvegurinn, er til fjármagn í að halda þar áfram? Mikil vegagerð er í gangi við Höfn í Hornafirði, hvað líður því? Síðan erum við að tala um einbreiðar brýr víða í Suðurkjördæmi. Ég held að ég hafi talið eitthvað ríflega 30 einbreiðar brýr síðast þegar ég fór þar um. Hvað líður þeim?

Síðan eru umferðaröryggismál. Það er sorglegt að við skulum skera þar niður um 180 millj. á sama tíma og ég hefði viljað sjá reynt að koma upp ökugerðum til að þjálfa unga ökumenn víða um land.