136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um samgöngumál. Margar spurningar brenna á þingmönnum og margt sem kemur fram í svona umræðu sem ekki verður hægt að tæma hér, geri ég ráð fyrir. Það sem vakir fyrst og fremst fyrir mér er að fá fram hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar þegar skera þarf niður í samgöngumálum. Það er meginatriðið að við áttum okkur á því hvar eigi að skera niður.

Nú hefur hæstv. samgönguráðherra sagt að áherslan sé á mannaflsfrekar framkvæmdir og það er vel. Hann hefur jafnframt sagt að áhersla sé á undirbúning og hönnun verka. Það bendir til þess að að hægt sé að fara í verkefni þegar betur árar og það er í sjálfu sér ágætt.

Ég finn og heyri að Norðfjarðargöngin eru greinilega komin á rekspöl hvað varðar hönnun og undirbúning. En hvað með önnur verk, t.d. Sundabraut? Hvernig gengur undirbúningur þar? Er það verk sem hugsanlega væri hægt að hafa tilbúið þegar betur árar? Ég kalla enn eftir því og bið hæstv. samgönguráðherra að reyna að svara því betur hvar við sjáum fyrir okkur að niðurskurður verði á komandi ári. Nú kemur í ljós að mun lægri kostnaður er við einstök verk en ráð var fyrir gert, sem auðvitað skýrist af efnahagsástandinu, og þá kann að vera svigrúm til að fara frekar í smærri verk. Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra veltir slíku fyrir sér.

Grundvallaratriðið er að þegar við vitum að við komumst ekkert hjá áframhaldandi niðurskurði í samgöngumálum er gríðarlega brýnt fyrir þingheim að átta sig á því hver meginstefna hæstv. samgönguráðherra og samgönguyfirvalda verður þegar kemur að þessum niðurskurði. Hvar á að bera niður? Á að taka af öll stærstu verkin eða einbeita sér að smærri verkum? Hvernig sjá menn þetta fyrir sér?